Friday, April 16, 2010

Buffalo Soldier

Buffalo Soldier er stuttmynd frá árinu 2010 í leikstjórn Hlyns Árnasonar, Tryggva Tómassonar og Árna Gunnars Eyþórssonar. Myndin var unnin sem lokaverkefni fyrir kvikmyndagerðaráfanga við Menntaskólann í Reykjavík.

Í fyrstu virðist Buffalo Soldier ekki fjalla um mikið. Aðalleikarinn, Árni Gunnar, fer í stutt ferðalag undir áhrifum ýmissa vímuefna sem endar með ósköpum. Þegar betur er að gáð er þó hægt að sjá ýmislegt út úr myndinni. Það fyrsta sem væri vert að taka eftir er að myndinni er skipt upp í fjóra parta sem hver fyrir sig túlkar ákveðið vímuefni.

Í fyrsta hlutanum er vímuefninu maríjúana gert hátt undir höfði. Aðalsöguhetjan skemmtir sér konunglega á frekar saklausan hátt undir áhrifum þess. Tónlistin sem hljómar er lagið Buffalo Soldier eftir Bob Marley en titill myndarinnar vísar einmitt í það lag og Bob Marley er þekktur notandi maríjúana. Undir lok fyrsta hluta er söguhetjan þó orðin leið á áhrifum maríjúana og sækist í hina meira spennandi sýru. Fyrsta hluta líkur þegar hún fer í mók vegna fyrstu áhrifa efnisins.

Annar hluti byrjar þó snögglega þegar söguhetjan horfir á bjarta liti, magnað af áhrifum lyfsins, og þykir mikið til koma. Undir áhrifum sýrunnar er veruleikinn allt annar og það sem átti að sefa hungur söguhetjunnar í fyrsta hluta, Lucky Charms, er nú orðið mögulegt efni sem má misnota líka. Blandað saman við áfengi verður þetta sterk blanda sem söguhetjan veilar sér ekki við að sprauta í augað á sér enda undir áhrifum sterks veruleikatruflandi lyfs. Annar hluti endar á ruglingi og hröðum skotum, aðalsöguhetjan veit vart hvert hún er að fara eða hvað hún er að gera og athafnir hennar eru algjörlega handahófskenndar. Öðrum hluta lýkur snögglega og áhrofandinn er skilinn eftir í óvissu um það hvort söguhetjan muni lifa þetta ef enda er hún á heljarþrömm. Lagið sem hljómar undir er 4 með Aphex Twin og er mjög hratt tempó á því í samræmi við þennan hluta þar sem hann er allur spilaður í fast forward.

Þriðji hluti sækir svolítið aftur í fyrsta hluta, hann byrjar á mellow lagi líkt og sá fyrsti en ennþá er ekki allt með feldu. Þriðji hluti er í rauninni nokkurs konar samblanda fyrstu tveggja hlutanna. Rólegheit maríjúana reykingamannsins blandast saman við ofskynjanir sýruneytandans þar sem aftaka breytist í leik barns á róluvelli. Undir lok þriðja hluta hleypur söguhetjan með haus leikfélaga síns í gervi Osama Bin Laden og alls er óvíst um hvort þetta hafi verið alvöru persóna gerð að hinum ógnvænlega hryðjuverkamanni gegnum áhrif sýrunnar eða hvort hann er ímyndun ein. Lagið sem hljómar í þessum kafla er Don't Worry Be Happy með Bobby McFerrin og með því er reynt að ná aftur í afslappað viðmót fyrsta hluta.

Seinasti hlutinn er stystur en jafnframt truflaðastur. Söguhetjan vaknar aftur í herberginu sínu og kemur þá í ljós að maðurinn sem var tekinn af lífi er töluvert raunverulegur og söguhetjan hefur lagt haus hans á borðið í ofskynjunarvímu sinni. Þegar hann vaknar er hann samt orðinn svo sturlarður að eiturlyfjanotkun sinni að hann hefur misst öll tök á raunveruleikanum og í stað þess að hringja t.d. á lögreglu eða reyna að losa sig við hausinn gefur hann hausnum sígarettu. Seinasta skot myndarinnar er svo það sem sýnir best hversu djúpt söguhetjan er sokkin þar sem hún klippir af sér tunguna af engri sérstakri ástæðu annarri en að hún veit ekki betur.

Skemmtilegt er að taka eftir litrófi myndarinnar. Fyrsti hlutinn er grænn í samræmi við maríjúanareykingar en grænt maríjúanalauf táknar oft það eiturlyf. Þegar í annan hluta er komið er hinn tilfinningaríki og heiti rauður notaður til þess að undirstrika ákefðina í sýruneyslu. Hinn skrýtni guli litur er notaður þegar áhorfandinn veit ekki hvað hann á að halda í þriðja hluta og fjórði hlutinn er mjög blár og dökkur í samræmi við ömurleikann sem hann táknar.

Með þessu móti má líkja hlutunum fjórum við árstíðirnar. Fyrsti hluti er vorið þar sem allt er að verða grænt og gott, hamingjusamasti partur myndarinnar. Annar hlutinn er sumarið þar sem allt er á fleygiferð og þriðja skotið er haustið sem er samblanda allra árstíða. Fjórða skotið er þá að sjálfsögðu veturinn sem er blár og dökkur tekur án útskýringa eða ástæðu.

Að lokum fylgir myndin sjálf til hliðsjónar


Buffalo Soldier from Hlynur Arnason on Vimeo.

Wednesday, April 7, 2010

Dómur um kvikmyndagerð





Þegar ég valdi mér valfag var kvikmyndagerð það eina sem kom til greina. Ég hef mikinn áhuga á kvikmyndum og kvikmyndagerð og hef verið að fikta eitthvað með kvikmyndagerð áður. Ég hafði í heildina gaman af því að vera í kvikmyndagerð í vetur en auðvitað má margt betur fara.

Mér finnst að það ættu að vera harðari deadlines á stuttmyndunum. Mér fannst langskemmtilegast að gera stuttmyndirnar en það komu löng tímabil þar sem maður var ekkert að vinna í þeim en svo fékk maður myndavél og klippitölvu í mjög takmarkaðan tíma og þurfti þá að drífa myndina af. ÞEtta var að sjálfsögðu vegna þess að allir þurftu að deila einni myndavél og tölvu en mér finnst að það mætti koma til móts við nemendur á þann hátt að reyna að fá þá til að vinna á sínar eigin græjur líka og meta það kannski út frá því sem þeir höfðu. T.d. ef nemandi á myndavél sem er ekki jafn fullkomin og MR vélin þá ætti hann að geta nýtt sér hana og fengið þá meiri tíma þó að það kæmi kannski niður á gæðum. Mér finnst vanta hvatninguna til þess að nota eigin tæki þ.e.

Varðandi kvikmyndasýningatímana þá finnst mér aðstaðan og tíminn léleg en það er auðvitað vegna þess að það er erfitt að troða inn þremur tímum í einu inn í stundaskrá. Ég nýtti mér það að geta horft á myndirnar heima mikið þennan veturinn og get ég fullyrt að ég naut myndanna mun betur þegar ég horfði á þær í mestu makindum heima í stað þess að horfa á þær á hörðu stólunum í hátíðarsalnum þar sem það sást kannski ekkert alltof vel. Mér finnst líka að það ætti að bjóða nemendum frekar upp á það að horfa á myndirnar heima og auka aðgengi að þeim enda var töluvert erfitt að redda nokkrum þeirra. Annað sem mér fannst vanta varðandi myndirnar var kynning á þeim og af hverju við værum að horfa á einmitt þessa mynd. Stundum fannst mér eins og við værum að horfa á svarthvíta franska mynd bara út af því að hún var svarthvít og frönsk (ákveðin svarthvít frönsk mynd um píanóleikara kemur upp í hugann, ég veit ekkert hvað var sérstakt við hana).

Varðandi íslensku myndirnar þá var frábært að fá leikstjórana í heimsókn. Ég lærði mikið af þessum heimsóknum og það var skemmtilegt að fá að heyra meira hugsunina bakvið myndina sem maður var að sjá. Það sem mér fannst leiðinlegra var þó myndirnar sem við fórum á. Reykjavík Whale Watching Massacre var ein lélegasta mynd sem ég hef séð og ég fór ekki að sjá neina mynd með kvikmyndafræðihópnum enda vildi ég fá að vita að myndin væri þess virði að borga íslenskt verð á áður en ég færi að sjá þær í bíó. Restin af myndunum fékk þó góða dóma og ég fór að sjá þær á endanum nema Kóngaveg. Ég hef bara heyrt slæma hluti um þá mynd og ég ætla ekki að horfa á hana nema þá að ég detti inn á hana á stöð 1 eftir nokkur ár, hvað þá að ég ætli að borga meira fyrir að sjá hana í bíó. Mér hefði fundist betra ef við hefðum getað fengið séns á því að fá dóma um myndina fyrst eða þá bara að sjá eldri klassískar íslenskar myndir og fá leikstjórana bara í sambandi við þær.

Aldrei aftur...

Mér fannst rosalega gaman að fara á RIFF hátíðina og fannst mér það hápunktur námskeiðsins.

Ef það er eitthvað sem mér fannst vanta þá væru það fleiri stuttmyndir. Það þyrfti bara að hafa strangara deadline á þeim og þá mundi án efa takast að hafa 4 stuttmyndir yfir veturinn og samt þyrfti maður ekki að vera að reyna að redda lokaverkefninu í stúdentsprófunum. Græjuskil gengu þó almennt vel og sé ég enga ástæðu til að breyta því fyrirkomulagi.

Ef það er eitthvað sem má henda út þá finnst mér það í rauninni vera lokaprófið. Mér finnst þetta vera miklu meira efni í símatsáfanga og ég er í rauninni ekki alveg viss um hvernig er hægt að setja upp próf í kvikmyndagerð þar sem kvikmyndagerð snýst að miklu leyti um tilfinningu fyrir myndinni, allavegana frá mínum bæjardyrum séð.

Mér finnst góð hugmynd að dreyfa kvikmyndasögunni aðeins meira yfir veturinn og tengja hana fyrilestrunum. Fyrirlestrarnir voru þó almennt mjög skemmtilegir og fræðandi. Mér fannst samt miður að það væri kommentað á gæðin í myndbrotunum í okkar fyrirlestrum. Myndirnar sem þú lést okkur fá voru á einhverju formatti sem erfitt var að spila, mörgum myndanna þurftum við að downloada sjálfir vegna þess að þær vildu ekki spilast af disknum og það endaði á því að ég þurfti að downloada myndskeiðum af youtube til þess að geta sýnt klippurnar.

Það eina sem ég get sett út á bloggið er að það þyrfti að vera meira samræmi í því. Ég komst fljótt að því að ég fékk jafnmörg stig fyrir eina langa færslu og tvær örstuttar og því er mér spurn af hverju ég ætti að vera að eyða löngum tíma í góða færslu þegar ég get dritað niður 2 stuttum á litlum sem engum tíma. Þetta reyndar breyttist seinasta mánuðinn. Ég veit samt ekki hvernig væri betra að hvetja fólk til að blogga.

Allt í allt var þetta gott námskeið, takk fyrir veturinn.

Monday, April 5, 2010

Paprika



Ég lenti í smá vandræðum með það að finna þessa mynd. Upphaflega eintakið af kvikmyndinni Paprika var gamalt, frá árinu 1991. Skrýtið, hugsaði ég með mér enda hélt ég að þetta væri frekar ný mynd. Ég lét það þó ekki stoppa mig enda eru t.d. fjöldamargar Miyazaki myndir ennþá eldri og hófst því áhorf myndarinnar. Við tók annað en ég hafði búist við. Það kemur í ljós að árið 1991 var búin til ljósblá mynd um stúlku sem tekur sér nafnið Paprika þegar hún byrjar að vinna sem vændiskona og ævintýri hennar. Þar sem myndin var á ítölsku og ég textalaus gat ég því miður ekki horft á hana heldur vatt mér í það að finna hina réttu Paprika og gætti mín í þetta skipti á því að hún væri frá 2006.

Paprika frá 1991

Ég er aðdáandi anime mynda og þátta en einu myndirnar sem ég hef séð eru eftir Miyazaki svo ég var spenntur að sjá kvikmynd í fullri lengd eftir annan leikstjóra. Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum með Paprika. Hugmyndin er skemmtileg og vel útfærð auk þess sem myndirnar og tónlistin eru framúrskarandi. Erfitt er að sjá mörkin milli þess veraldlega og andlega og myndin leikur sér svolítið að því að rugla mann. Það verður samt aldrei þreytt enda er handritið gott. Eitt það skemmtilegasta við þessa mynd fannst mér þó að systir mín, sem hefur tjáð mér þónokkrum sinnum að anime sé bara fyrir lúða, dróst að myndinni og fannst hún alveg jafn góð og mér, ef ekki betri. Meðfylgjandi er skemmtilegt og súrrealískt atriði úr myndinni.

Tuesday, March 16, 2010

Happy End

Happy End er mjög sérstök mynd sem gerist að öllu leiti afturábak. Ég skemmti mér konunglega við áhorf hennar enda er handritið svo vel skrifað að í staðinn fyrir að rugla mann í öfugri röðinni þá gengur það algjörlega upp. Sérstaklega er þó skemmtilegt að sjá fólk borða og hluti eyðileggjast afturábak og samtölin afturábak eru frábær.

Happy End er ferskur blær í kvikmyndum og eina myndin sem ég hef séð fyrir utan hina frábæru Memento sem byggir á sömu hugmynd þó Happy End hafi að sjálfsögðu komið út langt á undan Memento.

Tuesday, March 9, 2010

Salinui chueok



Salinui chueok eða Memories of Murder í leikstjórn Joon-ho Bong fjallar um 2 leynilögreglumenn sem eru að reyna að finna raðmorðingja. Leynilögreglumennirnir svífast einskis við leit morðingjans og nota oft grófar aðferðir til að ná sínu fram, oftast án árangurs.

Myndin hefur mjög flottan drungalegan blæ og það var sennilega það sem mér líkaði best við hana. Leikurinn er auk þess góður og eru það auðvitað persónurnar sem eiga þátt í því að skapa þennan blæ. Ekki var þó laust við að myndin væri langdregin og endirinn fannst mér óneitanlega svekkjandi.

Myndin er þó allt í allt flott glæpasaga sem er vel þess virði að horfa á. Verst er þó að hún er kóresk og nær hún því varla góðri útbreiðslu út fyrir landið þrátt fyrir að hún hafi gert mjög góða hluti í Kóreu.

Tuesday, March 2, 2010

Police Story

Police Story er hasarmynd með leikaranum Jackie Chan í aðalhlutverki. Í myndinni þarf Jackie að kljást við bíræfinn eiturlyfjabarón sem er að reyna að klína morði uppá hann og Jackie þarf að hreinsa mannorð sitt og halda í kærustuna í leiðinni. Söguþráðurinn er svosem ekki upp á marga fiska en það sem gerir þessa mynd sérstaka eru hasaratriðin. Þau eru öll stórfenglega samansett og mikið gert upp úr því að hafa þau sem flottust þar sem frjótt ímyndnarafl hefur verið notað við gerð þeirra.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Jackie Chan en hann öðlaðist mikla virðingu frá mér eftir þessa mynd og þá sérstaklega út af því að hann lék í öllum hasaratriðunum sjálfur og hvílík hasaratriði! Þegar hann stekkur á rafmagnsljósin í verslunarmiðstöðinni er algjört brjálæði enda slasaðist hann alvarlega við gerð þess atriðis en samt ákvað hann að gefast ekki upp og kláraði það með stæl.

Police Story er frábær hasarmynd en hefur lítið annað að bjóða en þennan hasar og því þarf maður að vera í sérstöku skapi til að horfa á hana en ég mæli þó tvímælalaust með henni fyrir ekta hasarmyndaaðdáendur.

Sunday, February 28, 2010

Blow

Blow er sönn saga um eiturlyfjabaróninn George Jung (Johnny Depp) og það hvernig hann fór frá því að fikta við gras í það að verða alræmdasti dópsmyglari og sali Bandaríkjanna. Myndin er mjög góð enda saga George Jung alveg ótrúleg og ekki skemmir fyrir stórgóð túlkun Johnny Depp á honum. Sagan er bæði mjög fyndin og dramatísk og hrífur áhorfandann með þar sem Jung fær alla manns samúð. Í rauninni er eins og Jung sé að upplifa ameríska drauminn þar sem hann fer frá engu yfir í það að vera multi milljóner og er í rauninni bara óheppilegt að hann skyldi velja sér þennan vetvang til þess að gera það.

Ég mæli hiklaust með Blow enda er hún stórgóð glæpamynd sem gefur myndum eins og Goodfellas og American Gangster lítið eftir.

The Invention of Lying


The Invention of Lying er nýjasta mynd grínistans Ricky Gervais og skartar hún honum einnig í aðalhltuverki. Myndin segir sögu af Mark Bellison (Gervais) sem lifir í heimi þar sem lygin hefur ekki verið fundin upp. Einn daginn þegar Bellison er kominn á vonarvöl vegna paningaskorts og veikinda móður sinnar fær hann þá hugdettu að segja eitthvað sem er ekki satt. Í framhaldinu fer Bellison að lifa draumalífinu þar sem hann getur öðlast frægð og peninga með því einu að ljúga og það besta er að allir trúa honum. Það fer þó að síga á ógæfuhliðina fyrir honum þegar hann skáldar óvart upp trúarbrögð (alls óþekktan hlut) á dánarbeði móður sinnar. Á milli þess er hann að reyna að öðlast ást hinnar fögru Anna McDoogles (Jennifer Garner) sem vill lítið með hann hafa og skefur ekki undan því af hverju enda er Bellison lítill og feitur og hún að sjálfsögðu ótrúlega hreinskilin.

The Invention of Lying er ágætis mynd sem býður upp á margar skemmtilegar senur vegna þess hversu fólk er opinskátt of hreinskilið. Myndin verður þó aðeins lakari við gervitrúarbrögð Bellison enda er þetta alls ódulin ádeila á kristni sem verður kannski aðeins of mikil á köflum.

Sem mikill aðdáandi Ricky Gervais horfði ég á þessa mynd með nokkrum væntingum og varð þó ekki fyrir vonbrigðum. Ágætis grínmynd sem fær mann þó til þess að hugsa.

Up in the Air


Up in the Air fjallar um Ryan Bingham (George Clooney), mann sem hefur það að atvinnu að reka fólk. Bingham vinnur fyrir fyrirtæki sem sérhæfir sig í brottrekstri starfsmanna fyrir forstjóra sem eru of miklar skræfur til að gera það sjálfir. Bingham er sá besti í sínu starfi og flýgur út um öll Bandaríkin til að sinna því á milli þess sem hann flytur fyrirlestra um það hvernig hægt sé að ferðast án fyrirhafnar. Einn daginn er hann þó kallaður inn og sýnt framtíðina í bransanum, brottrekstur starfsmanna gegnum internetið, sem er hannað af nýliðanum Natalie Keener (Anna Kendrick). Bingham líst ekkert á þetta og bíðst til þess að sýna Keener hvað starfið hans snýst um. Myndin fjallar svo um ferð Binghams og Keener um Bandaríkin þar sem þau reka hvern starfsmanninn á eftir öðrum á milli þess sem Bingham á í ástarsambandi við hina víðförulu Alex Goran (Vera Farmiga).

Up in the Air er stórgóð mynd sem skilur þó nokkuð eftir sig. George Clooney er frábær í hlutverki sínu sem skítseyðið Bingham og er í rauninni svo góður að hann fær alla manns samúð. Kendrick er auk þess góð sem hin óveraldarvana Keener og sambandið milli Clooney's og Farmiga er mjög vel leikið og sannfærandi. Starfsfólkið sem er verið að reka er sérstaklega sannfærandi og er það vegna þess að fólkið sem lék það var valið vegna þess að það hafði verið rekið fyrir stuttu í alvörunni og það látið endurupplifa atburðinn.

Ég mæli tvímælalaust með Up in the Air þar sem hún inniheldur stórgóða sögu, leik og persónur.

Jackass 2


Jackass 2 er önnur myndin í fullri lengd eftir vitleysingana í Jackass hópnum. Myndin er alveg eins og þættirnir og fyrri myndin þar sem hún hefur engan söguþráð heldur sýnir hún eingöngu klippur af vitleysingum að gera vitlausa hluti. Þrátt fyrir að fylgja sömu formúlu og áður er myndin tvímælalaust betri en sú fyrri og er í rauninni alveg sprenghlægileg. Frjótt ímyndunarafl vitleysinganna og sjálfseyðingarhvöt þeirra myndar fullkomna blöndu af hálfvitaleik sem kitlar hláturtaugarnar allrækilega.

Svo virðist sem Jackass hópurinn styrkist með hverri mynd og er það gott því Jackass 3 er á næsta leiti. Þrátt fyrir það að húmor myndanna hafi oft verið flokkaður sem lélegur og barnalegur þá bíð ég tvímælalaust spenntur eftir næstu mynd.

Final Destination 4


Final Destination er, eins og nafnið gefur til kynna, fjórða myndin í hinum klassíska Final Destination myndabálki. Myndin skartar eins og venjulega alls óþekktum leikurum í aðalhlutverki og er tiltölulega low budget. Skemmtileg nýjung við þessa myn er þó að hana er hægt að horfa á í þrívídd og er það greinilega þannig sem menn hugsuðu sér að myndin mundi græða.

Myndin fylgir nákvæmlega sömu formúlu og hinar myndirnar. Hópur fólks lifir af stórslys af tilviljun og núna er dauðinn á eftir þeim til að klára það sem hann byrjaði á. Þrátt fyrir að fókið eigi við ofurefli að etja reynir það þó að sporna við dauðanum með ýmsum hætti og telja sig hafa tekist það. Það er þó ekki raunin og í staðinn fær áhorfandinn að sjá dauðdaga hvers og eins sem eru oftar en ekki fáránlegir (á góðan hátt) og jaðra oft við splatter.

Final Destiantion 4 er arfaslök mynd sem á þó sína spretti. Get samt ekki sagt að ég mæli með henni.

Cop Out


Cop Out er grín-hasarmynd með Bruce Willis og Tracy Morgan í aðalhlutverki. Myndin fjallar um Jimmy Monroe (Willis) sem ætlar að greiða fyrir brúðkaup dóttur sinnar með fágætu hafnaboltaspjaldi. Allt fer þó í háaloft þegar spjaldinu er stolið og fær hann því félaga sinn Paul Hodges (Morgan) til þess að ná kortinu aftur með sér.

Cop Out er ágætis mynd sem er vel þess virði að horfa á ef maður er í skapi fyrir svona mynd. Willis og Morgan eru báðir góðir í hlutverkum sínum auk þess sem Sean William Scott kemur á óvart. Þó að það sé ekki boðið upp á neitt nýtt með þessari mynd er hún ágætis skemmtun.

Wednesday, February 24, 2010

Into the Blue


Kvikmyndin Into the Blue sem skartar Jessicu Alba í aðalhlutverki fjallar um ungt par sem stundar köfun á Bahama eyjum. Parið finnur fjársjóð í sokknu skipi en að þeim óafvitandi eru kókaínsmyglarar í nágrenninu að leita að flugvél sem hefur brotlent með kókaínfarm og kæra sig ekki um að þau séu að snuðra á svæðinu.

Into the Blue er hræðileg mynd sem er byggð utan um eina heita gellu og einn heitann gaur til þess að raka inn sem miklum pening og hægt er. Myndinni hefur því miður án efa tekis ætlunarverk sitt. Það eina góða við myndina eru flottar neðansjávartökur og áðurnefnd heit gella.

Tuesday, February 23, 2010

Man Bites Dog


Kvikmyndin Man Mites Dog í leikstjórn Rémy Belvaux, André Bonzel og Benoît Poelvoorde frá árinu 1992 fjallar um fjöldamorðingja sem er eltur af kvikmyndatökuliði. Tökuliðið fylgir manninum eftir og sogast smátt og smátt inn í atburðarásina þar sem maðurinn fer um og drepur það sem honum sýnist. Maðurinn er leikinn af Benoît Poelvoorde og er góður í hlutverki sínu sem algjörlega siðlaus morðingi.

Myndin er fyrst og fremst skrýtin en þó ekki á slæman hátt. Hú fær mann einhvern veginn til þess að hrífast með og lætur manni svo líða illa fyrir það með hrottalegu nauðgunaratriðinu í endann. Frekar góð mynd sem skilur klárlega eitthvað eftir sig.

Sunday, January 31, 2010

This is it!


This is it fjallar um undirbúning fyrir tónleikaröð sem Michael Jackson ætlaði að halda rétt áður en hann lést seinasta sumar. Myndefnið sýnir æfingar hjá bæði dönsurum og Michael sjálfum og var tekið upp fyrir Michael sjálfan fyrir persónulegt safn hans.

Ég hafði mjög gaman af því að horfa á myndina enda Michael Jackson mikill meistari. Hann lagði gríðarlega vinnu í þessa tónleika og sést í myndinni hversu ótrúlegir þeir hefðu orðið ef hann hefði ekki látist svo snögglega. Það er frábært að sjá hann flytja sín þekktustu lög "live" og dansa með enda bæði einn besti söngvari og dansari sem um ræðir.

This is it er án efa skylduáhorf fyrir aðdáendur Jacksons en aðrir ættu alls ekki að láta hana framhjá sér fara.

Arrested Development



Arrested Development eru stórkostlegir þættir sem fjalla um  - eins og greint er frá í introinu - um ríka fjölskyldu sem missir allt og soninn sem verður að halda þeim saman. Þessi sonur er Michael Bluth (Jason Bateman) og virðist hann vera sá eini í fjölskyldunni sem getur flokkast sem eðlilegur. Aðrar frábærar persónur er bróðir hans; misheppnaður töframaður að nafni GOB (Will Arnett); sonur hans George Michael (Michael Cera) sem er bálskotinn í frænku sinni Mabey (Alia Shawkat) og fjölskyldufaðirinn George Bluth (Jeffrey Tambor) sem steypti fjölskyldufyrirtækinu í vandræði með því að selja Írökum hús.

Gerðar hafa verið 3 seríur af þáttunum og gegnumgangandi söguþráður í þeim öllum er að Michael er að reyna að bjarga fjölskyldunni og fyrirtækinu frá glötun. Enginn meðlimur fjölskyldunnar gerir sér grein fyrir því hvað Michael er að gera mikið og halda vitleysunni áfram sem felur t.d. í sér endalausar flóttatilraunir föðursins úr fangelsi. Því miður er ekki hægt að setja inn brot úr þættinum sem gæti lýst þessu því þau eru strax tekin af youtube (ég reyndi).

Aðdáendur þáttanna voru miður sín þegar þeir komust að því að framleiðslu þáttanna var hætt eftir 3. seríuna en þrátt fyrir þetta hafa vinsældir þáttanna aðeins aukist og í raun fengið ákveðinn "cult status" og þessvegna á nú að gera bíómynd eftir þáttunum.

Arrested Development eru frábærir þættir sem enginn ætti að láta framhjá sér fara enda hef ég ekki ennþá heyrt neinn segja slæman hlut um þá.

Tuesday, January 26, 2010

Mamma Gógó og Bjarnfreðarson



Mamma Gógó fjallar um aldraða konu sem greinist með Alzheimers og það hvernig fjölskylda hennar bregst við sjúkdómnum. Gamla konan er alltaf að koma sér í vandræði og því ákveður fjölskyldan að flytja hana á heimili fyrir aldraða. Á meðan er sonur hennar að kljást við fjárhagsvandamál vegna þess að mynd semm hann er nýbúinn að gera er óvinsæl í bíóhúsum.


Mamma Gógó fannst mér ágætis mynd með nokkrum fyndnum atriðum en þau náðu að sjálfsögðu ekki að skyggja á það hversu ömurlegur þessi sjúkdómur er. Það var mjög sorglegt að sjá gömlu konuna sökkva dýpra í sjúkdóminn og var það túlkað mjög vel af Kristbjörgu Kjeld.



Bjarnfreðarson fjallar um líf hins kostuglega vaktaþríeykis eftir fangelsisvistina og uppeldi Georgs Bjarnfreðarsonar. Leikararnir fara sem fyrr á kostum og þykir mér myndin alls ekki síðri en þættirnir. Það sem kom mér á óvart var hversu vel myndin var gerð og hvað hljóðið var gott en það hefur oft vantað í íslenskar kvikmyndir.


Mér þótti myndin frábært framhald á þáttunum og það vara gaman að fá að skyggnast inn í líf fólksins sem gerði Georg að því sem hann er.


Ég biðst afsökunar á því hversu seint þetta blogg kemur en ástæðan er sú að ég var löngu búinn að ákveða að fara með fjölskyldunni á þessar myndir og fór því ekki með kvikmyndagerðarhópnum. Það hafðist þó ekki fyrr en nýlega.