Sunday, January 31, 2010

This is it!


This is it fjallar um undirbúning fyrir tónleikaröð sem Michael Jackson ætlaði að halda rétt áður en hann lést seinasta sumar. Myndefnið sýnir æfingar hjá bæði dönsurum og Michael sjálfum og var tekið upp fyrir Michael sjálfan fyrir persónulegt safn hans.

Ég hafði mjög gaman af því að horfa á myndina enda Michael Jackson mikill meistari. Hann lagði gríðarlega vinnu í þessa tónleika og sést í myndinni hversu ótrúlegir þeir hefðu orðið ef hann hefði ekki látist svo snögglega. Það er frábært að sjá hann flytja sín þekktustu lög "live" og dansa með enda bæði einn besti söngvari og dansari sem um ræðir.

This is it er án efa skylduáhorf fyrir aðdáendur Jacksons en aðrir ættu alls ekki að láta hana framhjá sér fara.

Arrested Development



Arrested Development eru stórkostlegir þættir sem fjalla um  - eins og greint er frá í introinu - um ríka fjölskyldu sem missir allt og soninn sem verður að halda þeim saman. Þessi sonur er Michael Bluth (Jason Bateman) og virðist hann vera sá eini í fjölskyldunni sem getur flokkast sem eðlilegur. Aðrar frábærar persónur er bróðir hans; misheppnaður töframaður að nafni GOB (Will Arnett); sonur hans George Michael (Michael Cera) sem er bálskotinn í frænku sinni Mabey (Alia Shawkat) og fjölskyldufaðirinn George Bluth (Jeffrey Tambor) sem steypti fjölskyldufyrirtækinu í vandræði með því að selja Írökum hús.

Gerðar hafa verið 3 seríur af þáttunum og gegnumgangandi söguþráður í þeim öllum er að Michael er að reyna að bjarga fjölskyldunni og fyrirtækinu frá glötun. Enginn meðlimur fjölskyldunnar gerir sér grein fyrir því hvað Michael er að gera mikið og halda vitleysunni áfram sem felur t.d. í sér endalausar flóttatilraunir föðursins úr fangelsi. Því miður er ekki hægt að setja inn brot úr þættinum sem gæti lýst þessu því þau eru strax tekin af youtube (ég reyndi).

Aðdáendur þáttanna voru miður sín þegar þeir komust að því að framleiðslu þáttanna var hætt eftir 3. seríuna en þrátt fyrir þetta hafa vinsældir þáttanna aðeins aukist og í raun fengið ákveðinn "cult status" og þessvegna á nú að gera bíómynd eftir þáttunum.

Arrested Development eru frábærir þættir sem enginn ætti að láta framhjá sér fara enda hef ég ekki ennþá heyrt neinn segja slæman hlut um þá.

Tuesday, January 26, 2010

Mamma Gógó og Bjarnfreðarson



Mamma Gógó fjallar um aldraða konu sem greinist með Alzheimers og það hvernig fjölskylda hennar bregst við sjúkdómnum. Gamla konan er alltaf að koma sér í vandræði og því ákveður fjölskyldan að flytja hana á heimili fyrir aldraða. Á meðan er sonur hennar að kljást við fjárhagsvandamál vegna þess að mynd semm hann er nýbúinn að gera er óvinsæl í bíóhúsum.


Mamma Gógó fannst mér ágætis mynd með nokkrum fyndnum atriðum en þau náðu að sjálfsögðu ekki að skyggja á það hversu ömurlegur þessi sjúkdómur er. Það var mjög sorglegt að sjá gömlu konuna sökkva dýpra í sjúkdóminn og var það túlkað mjög vel af Kristbjörgu Kjeld.



Bjarnfreðarson fjallar um líf hins kostuglega vaktaþríeykis eftir fangelsisvistina og uppeldi Georgs Bjarnfreðarsonar. Leikararnir fara sem fyrr á kostum og þykir mér myndin alls ekki síðri en þættirnir. Það sem kom mér á óvart var hversu vel myndin var gerð og hvað hljóðið var gott en það hefur oft vantað í íslenskar kvikmyndir.


Mér þótti myndin frábært framhald á þáttunum og það vara gaman að fá að skyggnast inn í líf fólksins sem gerði Georg að því sem hann er.


Ég biðst afsökunar á því hversu seint þetta blogg kemur en ástæðan er sú að ég var löngu búinn að ákveða að fara með fjölskyldunni á þessar myndir og fór því ekki með kvikmyndagerðarhópnum. Það hafðist þó ekki fyrr en nýlega.