Wednesday, April 7, 2010

Dómur um kvikmyndagerð





Þegar ég valdi mér valfag var kvikmyndagerð það eina sem kom til greina. Ég hef mikinn áhuga á kvikmyndum og kvikmyndagerð og hef verið að fikta eitthvað með kvikmyndagerð áður. Ég hafði í heildina gaman af því að vera í kvikmyndagerð í vetur en auðvitað má margt betur fara.

Mér finnst að það ættu að vera harðari deadlines á stuttmyndunum. Mér fannst langskemmtilegast að gera stuttmyndirnar en það komu löng tímabil þar sem maður var ekkert að vinna í þeim en svo fékk maður myndavél og klippitölvu í mjög takmarkaðan tíma og þurfti þá að drífa myndina af. ÞEtta var að sjálfsögðu vegna þess að allir þurftu að deila einni myndavél og tölvu en mér finnst að það mætti koma til móts við nemendur á þann hátt að reyna að fá þá til að vinna á sínar eigin græjur líka og meta það kannski út frá því sem þeir höfðu. T.d. ef nemandi á myndavél sem er ekki jafn fullkomin og MR vélin þá ætti hann að geta nýtt sér hana og fengið þá meiri tíma þó að það kæmi kannski niður á gæðum. Mér finnst vanta hvatninguna til þess að nota eigin tæki þ.e.

Varðandi kvikmyndasýningatímana þá finnst mér aðstaðan og tíminn léleg en það er auðvitað vegna þess að það er erfitt að troða inn þremur tímum í einu inn í stundaskrá. Ég nýtti mér það að geta horft á myndirnar heima mikið þennan veturinn og get ég fullyrt að ég naut myndanna mun betur þegar ég horfði á þær í mestu makindum heima í stað þess að horfa á þær á hörðu stólunum í hátíðarsalnum þar sem það sást kannski ekkert alltof vel. Mér finnst líka að það ætti að bjóða nemendum frekar upp á það að horfa á myndirnar heima og auka aðgengi að þeim enda var töluvert erfitt að redda nokkrum þeirra. Annað sem mér fannst vanta varðandi myndirnar var kynning á þeim og af hverju við værum að horfa á einmitt þessa mynd. Stundum fannst mér eins og við værum að horfa á svarthvíta franska mynd bara út af því að hún var svarthvít og frönsk (ákveðin svarthvít frönsk mynd um píanóleikara kemur upp í hugann, ég veit ekkert hvað var sérstakt við hana).

Varðandi íslensku myndirnar þá var frábært að fá leikstjórana í heimsókn. Ég lærði mikið af þessum heimsóknum og það var skemmtilegt að fá að heyra meira hugsunina bakvið myndina sem maður var að sjá. Það sem mér fannst leiðinlegra var þó myndirnar sem við fórum á. Reykjavík Whale Watching Massacre var ein lélegasta mynd sem ég hef séð og ég fór ekki að sjá neina mynd með kvikmyndafræðihópnum enda vildi ég fá að vita að myndin væri þess virði að borga íslenskt verð á áður en ég færi að sjá þær í bíó. Restin af myndunum fékk þó góða dóma og ég fór að sjá þær á endanum nema Kóngaveg. Ég hef bara heyrt slæma hluti um þá mynd og ég ætla ekki að horfa á hana nema þá að ég detti inn á hana á stöð 1 eftir nokkur ár, hvað þá að ég ætli að borga meira fyrir að sjá hana í bíó. Mér hefði fundist betra ef við hefðum getað fengið séns á því að fá dóma um myndina fyrst eða þá bara að sjá eldri klassískar íslenskar myndir og fá leikstjórana bara í sambandi við þær.

Aldrei aftur...

Mér fannst rosalega gaman að fara á RIFF hátíðina og fannst mér það hápunktur námskeiðsins.

Ef það er eitthvað sem mér fannst vanta þá væru það fleiri stuttmyndir. Það þyrfti bara að hafa strangara deadline á þeim og þá mundi án efa takast að hafa 4 stuttmyndir yfir veturinn og samt þyrfti maður ekki að vera að reyna að redda lokaverkefninu í stúdentsprófunum. Græjuskil gengu þó almennt vel og sé ég enga ástæðu til að breyta því fyrirkomulagi.

Ef það er eitthvað sem má henda út þá finnst mér það í rauninni vera lokaprófið. Mér finnst þetta vera miklu meira efni í símatsáfanga og ég er í rauninni ekki alveg viss um hvernig er hægt að setja upp próf í kvikmyndagerð þar sem kvikmyndagerð snýst að miklu leyti um tilfinningu fyrir myndinni, allavegana frá mínum bæjardyrum séð.

Mér finnst góð hugmynd að dreyfa kvikmyndasögunni aðeins meira yfir veturinn og tengja hana fyrilestrunum. Fyrirlestrarnir voru þó almennt mjög skemmtilegir og fræðandi. Mér fannst samt miður að það væri kommentað á gæðin í myndbrotunum í okkar fyrirlestrum. Myndirnar sem þú lést okkur fá voru á einhverju formatti sem erfitt var að spila, mörgum myndanna þurftum við að downloada sjálfir vegna þess að þær vildu ekki spilast af disknum og það endaði á því að ég þurfti að downloada myndskeiðum af youtube til þess að geta sýnt klippurnar.

Það eina sem ég get sett út á bloggið er að það þyrfti að vera meira samræmi í því. Ég komst fljótt að því að ég fékk jafnmörg stig fyrir eina langa færslu og tvær örstuttar og því er mér spurn af hverju ég ætti að vera að eyða löngum tíma í góða færslu þegar ég get dritað niður 2 stuttum á litlum sem engum tíma. Þetta reyndar breyttist seinasta mánuðinn. Ég veit samt ekki hvernig væri betra að hvetja fólk til að blogga.

Allt í allt var þetta gott námskeið, takk fyrir veturinn.

1 comment:

  1. Takk sömuleiðis og takk fyrir gagnlegar ábendingar.

    Ég hef ekkert á móti því að fólk noti eigin græjur, og þið hafið t.d. klippt á eigin tölvu. Hins vegar verður að hafa í huga að ætlunin er að setja allar myndirnar á DVD-disk, og það getur verið ansi erfitt fyrir mig að taka við wmv-fælum og koma þeim inn á DVD-studio á makkanum. Á seinasta ári var hópur sem skilaði verkefnum á wmv, og niðurstaðan var sú að a.m.k. ein myndanna þeira endaði úr synci á disknum...

    Það er hárrétt að maður verður að vera harðari á skilafresti í myndunum. Og það væri langskemmtilegast að hafa eina mynd í viðbót (maraþonmynd og heimildamynd fyrir jól, örmynd/auglýsingu og lokaverkefni eftir jól), en ég verð víst að taka tillit til þess að þið eruð í öðrum fögum líka.

    Leikstjóraheimsóknirnar eru alltaf meðal þess sem nemendur halda mest upp á, en því miður er það líka einn dýrasti hluti námskeiðsins því það kostar sitt að fara í bíó. Ég reyndi að væla út afslátt hjá bíóunum en þeir létu eins og ég væri ekki til. Við fórum líka á óvenjulega margar myndir í vetur (endaði þetta ekki í 6 stykkjum?), og miðað við niðurskurðinn hjá kvikmyndasjóði þá verða örugglega ekki eins margar ferðir á íslenskar myndir næsta vetur.

    Varðandi bloggið þá er erfitt að halda samræmi í því, sérstaklega yfir lengri tímabil. Ég hef reynt að gefa fyrir bæði lengd og innihald, en það getur verið sérlega erfitt að gefa fyrir stuttar færslur.

    Ég er eiginlega að sannfærast varðandi lokaprófið (það er líka svo erfitt að semja próf úr þessu efni). Kannski ég prófi að hafa áfangann próflausan næst.

    Ég held ég myndi alltaf hafa kvikmyndasöguna í einum hnút, en það er spurning um að hafa hana fyrr og ljúka henni með skyndiprófi og fyrirlestri (ég yrði að hafa a.m.k. 2-3 skrifleg verkefni yfir árið til þess að fá að hafa áfangann próflausan).

    Varðandi kvikmyndasýningarnar þá vil ég helst ekki breyta miklu þar. Vissulega eru stólarnir í salnum ekki þeir þægilegustu, en salurinn er eini staðurinn í gamla skóla sem maður getur myrkvað nægilega vel. Og ég veit ekki hvort ég geti bætt aðgengi að myndunum mikið. Ég er nú þegar á gráu svæði höfundarréttarlega, án þess að ég sé að dreifa til allra eintökum af myndunum sem við horfum á.

    Fínar athugasemdir. 10 stig.

    ReplyDelete