Monday, November 30, 2009

Fear and Loathing in Las Vegas



Þegar rithöfundinum Hunter S. Thompson var falið það verkefni að skrifa um Mint 400 mótorhjólakeppnina í Las Vegas ákvað hann að að eins ein leið væri til þess að umfjöllunin yrði góð. Hann þyrfti að innbyrða mikið magn af stórhættulegum lyfjum. Eftir þessa för til Las Vegas skrifaði hann 15000 orða grein, þrátt fyrir að hann hefði verið beðinn um að skrifa eingöngu 1500 orð, um bæði kappaksturinn og reynsluna af þessari stórmerkilegu ferð. Greininni var hafnað sem mesta bulli og var hún aldrei birt í blaðinu sem ætlaði að kaupa hana. Hunter endurskrifaði þá greinina og birti hana í tímaritinu Rolling Stone þar sem hún var birt í tveimur hlutum. Seinni hluti greinarinnar var um aðra ferð hans til borgarinnar þar sem hann skrifaði, frekar kaldhæðnislega, um eiturlyfjaráðstefnu sem var haldin af lögreglunni. Þessar tvær greinar var síðan gefnar út á bókarformi sem sagan Fear and Loathing in Las Vegas. Sagan er örlítið ýkt frásögn af ævintýri Hunters en í sögunni kýs hann að kalla sig Raoul Duke. Með í för er lögfræðingurinn hans Dr Gonzo sem er einnig byggður á vini Hunters, Oscar Z. Acosta, sem var þekktur fyrir villt skemmtanalíf sitt.



Upprunalega coverið á fyrri hluta sögunnar



Hunter S. Thompson og Oscar Z. Acosta


Í Fear and Loathing in Las Vegas er ameríski draumurinn gegnumgangandi þema en ein aðalástæðan fyrir því að félagarnir taka verkefnið að sér er leitin að honum. Því er líst á tregafullan hátt hvernig hippatímabilið er búið, enda gerist sagan 1971, og það hvernig menn eru hættar að taka lyf sem örva skynjunina og vilja frekar taka lyf sem setja mann í deyfðan vímusvefn. Hunter harmar það að menn séu hættir að berjast gegn valdinu og kallar það dauða ameríska draumsins og því er leit þeirra félaga að honum dæmd til að vera árangurslaus.


Eftir að hafa rekist á bókina ákvað ég að taka Fear and Loathing rispu og horfa á myndina strax eftir að lestri bókarinnar var lokið. Bæði bókin og myndin er mjög ruglingsleg og kemur það mjög vel út enda er Raoul í vímu mestallan tímann. Myndin er bókinni trú í flestum hlutum sem mér líkar mjög vel við enda tel ég að þegar mynd breytir söguþræði bókar þá sé einfaldlega komin önnur saga sem á í rauninni ekki að kenna við bókina. Þó er ruglingurinn ákveðinn galli á myndinni enda skilur maður oft ekki hvað persónurnar eru að segja í því annarlega ástandi sem þær eru í og er ég þakklátur fyrir að hafa lesið bókina fyrst því annars held ég að ég hefði lítið skilið í myndinni. Myndatakan og klippingin er rosalega góð og hárrétt blanda af þessum tveimur hlutum nær að skila vímunni á skjáinn svo maður fer sjálfur að spurja sig hvort maður sé kannski búinn að innbyrða eitthvað sjálfur.


Þessu til stuðnings er hér brot af því þegar félagarnir koma á hótel í LSD vímu og vænisýki og hræðsla er næstum búin að gera út af við Raoul.




Handritið af myndinni hafði verið til lengi áður en myndin var loksins gerð vegna ýmissa vandamála. Eitt stærsta vandamálið var að finna réttu leikarana og voru fjöldamargir stórleikarar orðaðir við hlutverkið. Eftir að hafa hitt Johnny Depp, sem leikur Raoul Duke, ákvað Hunter Thompson þó að hann væri fullkominn í hlutverkið og enginn annar skildi fá að leika hlutverk Duke. Johnny Depp fylgdi svo Hunter í hvert fótmál í 4 mánuði fyrir tökur til þess að herma eftir talmáli hans og háttum. Á þessum tíma urðu þeir miklir vinir og þess má geta að Depp er að fara að leika Hunter aftur í fyrstu bók hans, The Rum Diary.


Þrátt fyrir að myndin sé stórgóð þá verð ég að segja að í þessu tilviki er bókin betri. Þó að myndavélin geti ruglað mann töluvert þá er ekkert betra í því en ímyndunaraflið og því hverfur maður alveg inn í heim Raouls við lestur bókarinnar.

Wednesday, November 25, 2009

2012 - We Didn't Listen!


2012 er stórslysamynd í leikstjórn Roland Emmerich en hann hefur gert fleiri stórslysamyndir á borð við hina stórkostlegu Godzilla og The Day After Tomorrow. Myndin fjallar um heimsendinn sem Majarnir spáðu fyrir árið 2012 þegar heimurinn á að farast í stórum flóðbylgjum en það á að marka endi 4. tímabils mannsins á jörðinni (Það hefur þó komið í ljós að Majarnir spáðu ekki fyrir um neinn slíkan hlut heldur var þetta einfaldlega oftúlkun hamfaraspámanna).

Myndin er ekkert annað en stórslysamynd og rétt eins og Rambo IV átti ekki að vera neitt annað en sjúklega svalur gæi að drepa asíubúa þá skilar þessi mynd algjörlega því sem við mátti búast af henni. Tæknibrellurnar eru flottar en fátt annað við myndina er flott. Leikurinn er í meðallagi og söguþráðurinn einnig en það er bara í fínasta lagi enda veit maður algjörlega hvað maður er að fara að horfa á. Þessi mynd er algjörlega þess virði að sjá ef maður er í stuði til þess að slökkva á heilanum og sjá flott sjónarspil.

Paranormal Activity


Paranormal Activity er hryllingsmynd gerð af Oren Peli. Myndin var gríðarlega ódýr í framleiðslu en hún kostaði aðeins 15000$. Þessi ódýri framleiðslukostnaður stafaði af því að myndin er nær eingöngu tekin upp í einu húsi sem er hús leikstjórans og aðalleikaranir eru vinir leikstjórans. Myndin hefur fengið mikla umfjöllun og hefur verið "hype-uð" rosalega upp.

Ég var hrifinn af Paranormal Activity enda er hér á ferð mjög low-budget mynd sem virkar frekar vel. Söguþráðurinn er ágætur en myndin fjallar um par sem lifir góðu lífi í Bandaríkjunum. Konan hefur þó þann vangalla að henni fylgir alltaf einhver draugur sem hún getur ekki losað sig við, hversu oft sem hún flytur. Parið ákveður í sameiningu að reyna að taka þennan draug upp á kvikmyndatökuvél og láta hana rúlla á nóttunni enda er það þá sem vætturinn lætur sjá sig. Myndin skiptist í dag og nótt þar sem skringilegir atburðir gerast á nóttunni og parið horfir á þessa skrýtnu atburði á daginn. Alvara atburðanna fer stigmagnandi og alltaf verður meira spenna eftir því sem hver nótt líður.

Leikurinn er fínn og skemmtilegt var að sjá hvað samband parsins er "ekta" enda eru þau par í alvörunni. Það sem mér fannst líklegast best við myndina er að draugurinn er aldrei sýndur en það er það sem flestar hryllingmyndar klikka á. Þegar búið er að byggja upp spennuna rétt þá geta tæknibrellur aldrei jafnast á við ímyndunarafl áhorfandans svo maður verður alltaf fyrir vonbrigðum.

Paranormal Activity er góð mynd sem sýnir að góð hugmynd er alltaf betri en góðar tæknibrellur. Þrátt fyrir þetta verð ég að segja að hún er ekki næstum því jafn hryllileg og hún er sögð vera og mér finnst hún klárlega of "hype-uð".

Tuesday, November 10, 2009

Some Like It Hot

Some Like It Hot er gamanmynd frá árinu 1959 í leikstjórn Billy Wilder. Með aðalhlutverk fara Marilyn Monroe, Tony Curtis og Jack Monroe. Myndin fjallar um 2 tónlistarmenn sem verða vitni að morði af hendi mafíunnar. Til að komast undan klæðast þeir í drag og ganga í kvennahljómsveit. Á leiðinni til Miami með hljómsveitinni verður svo annar þeirra ástfanginn af öðrum hljómsveitarmeðlim og beitir ýmsum bellibrögðum til að næla í hana. Að lokum kárnar gamanið þegar mafían heldur ráðstefnu á hótelinu þar sem hljómsveitin er að spila og endar þetta allt í bráðskemmtilegum hasar.

Enskukennarinn minn í grunnskóla er mikill áhugamaður um kvikmyndir og ákvað hann að sýna okkur þessa eitt sinn. Rétt eins og þá skemmti ég mér konunglega við áhorf myndarinnar og jafnvel betur núna þegar ég skildi meira. Einn skemmtilegur hlutur sem enskukennarinn minn komst ekki hjá að láta út úr sér var sá að Jack Lemmon hafi í alvörunni haft mjög gaman af því að klæða sig í drag en ég sel það ekki dýrar en ég keypti það. Frábær gamanmynd með frábærum leikurum og skemmtilgum söguþræði.



Saturday, October 31, 2009

Choke

Choke er frá árinu 2008 og er leikstýrt af Clark Gregg. Í aðalhlutverki er Sam Rockwell sem kynlífsfíkillinn Victor Mancini. Myndin er byggð á sögu eins uppáhalds rithöfundarins míns, Chuck Palahniuk, en hann skrifaði einnig bókina Fight Club.

Myndin fjallar um Victor Mancini, kynlífsfíkil sem viðurkennir ekki vandamál sitt heldur fer á stuðningsfundi til þess að næla sér í aðra kynlífsfíkla. Victor er búinn með eitt ár í læknanámi en þegar mamma hans varð mjög slæm af alzheimers hætti hann í skólanum og byrjaði að vinna til þess að geta haft hana á rándýrri meðferðarstofnun. Til þess að hafa efni á meðferðarstofnuninni er Victor búinn að þróa svindl sem felur það í sér að á hverju kvöldi fer hann á veitingastað og treður í sig þar til hann fer að kafna á bita. Þegar hann byrjar að kafna lætur hann öllum illum látum og á endanum kemur alltaf einhver og bjargar honum frá vísum dauðdaga. Kenningin er sú að þegar maður hefur bjargað einhverjum finnist manni maður vera ábyrgur fyrir honum að eilífu. Victor fær því oft peningagjafir frá fólkinu sem hefur bjargað honum gegnum tíðina og þegar hann hefur kafnað oft og mörgum sinnum fara peningarnir að streyma inn jafnt og þétt. Victor réttlætir þetta á því að hann sé í rauninni bara að fá borgað fyrir það að gera eina manneskju að hetju í eitt kvöld. Ofan á þetta allt er Victor ástfanginn af einum lækni á meðferðarstofnuninni og er það í rauninni aðalsöguþráður myndarinnar ásamt því að Victor er að reyna að veiða upp úr mömmu sinni hver pabbi hans sé í rauninni en það reynist erfitt þar sem hún veit sjaldnast hver hann er.

Myndin er ágætlega gerð en hún klikkar einfaldlega á því að útskýra hlutina ekki nógu vel. Það eru mörg atriði sem koma auðveldlega fram í bókinni sem einfaldlega er ekki tími til að troða inn í myndina og því hefur söguþráðurinn ýmsar holur og spurningar sem aldrei er svarað. Ég, hafandi lesið bókina, horfði á myndina með vini mínum sem hafði ekki lesið bókina og hann var ekki alveg viss um hvað hefði gerst í myndinni. Mér finnst í rauninni stærsti gallinn við myndina hversu miklum upplýsingum er reynt að troða inn í hana á of litlum tíma.

Ég held að myndin sé í rauninni ekki þess virði að horfa á án þess að hafa lesið bókina og þykir mér það sorglegt þar sem t.d. Fight Club var komið svo vel til skila á hvíta tjaldinu. Ég held að bókin hafi einfaldlega verið ókvikmyndavæn og það hafi skilað sér í mynd sem kemur henni illa til skila.




The Gold Rush

Við gerð fyrirlestrarins um Charlie Chaplin horfði ég á myndirnar með honum sem mér hafði áskotnast. Af öllum þessum myndum fannst mér þó The Gold Rush frá árinu 1925 standa upp úr. Myndin fjallar um frægustu persónu Chaplins, The Tramp, og för hans til Klondike í leit að gulli. Myndin var upprunalega þögul en Chaplin endurútgaf hana seinna þar sem sögumaður sagði línur allra persónanna og var það útgáfan sem ég sá.

Myndin er full af bráðfyndnum en þó einföldum atriðum og finnst mér það vera helsti kostur hennar, einfaldleikinn. Brandararnir eru að sjálfsögðu flestir án orða og er það oft snilldarlega gert. Til dæmis má nefna atriðið þar sem glorsoltnir gullleitarmennirnir éta skóinn eða brauðdansinn. Þess má einnig til gamans geta að atriðið þar sem Chaplin breytist í kjúkling fyrir augum Big Jim var það fyrsta sinnar tegundar og hefur þetta atriði verið notað ótal sinnum. Ég hef mjög gaman af einföldum húmor sem skilar sér vel án mikillar fyrirhafnar og má þar nefna í sömu andrá Ferd'nand myndasögurnar þar sem öllum húmor er komið til skila með svipbrigðunum einum saman.Myndin er góð blanda af húmor og rómantík og er gaman hvernig þessir tveir hlutir tvinnast saman, t.d. er bráðfyndið atriðið þar sem Chaplin berst fyrir ást Georgiu en er óafvitandi bjargað af fallandi klukku.

The Gold Rush er frábær mynd og eins og áður hefur komið fram mín uppáhalds eftir Charlie Chaplin. Mér finnst mikil synd hversu sjaldgæfur þessi húmor er orðinn í myndum nú til dags þar sem hann er oftar en ekki orðinn óþroskaður og fyrirsjáanlegur.

Tuesday, October 27, 2009

Jóhannes


Þrátt fyrir að hafa ekki komist á myndina á sunnudeginum með restinni af kvikmyndagerðarhópnum fór ég á myndina Jóhannes. Myndin er fyrsta verk Þorsteins Gunnars Bjarnarsonar en hann leikstýrði myndinni og skrifaði handritið. Eins og svo oft á við um íslenskar myndir varð ég fyrir vonbrigðum enda hafði ég leyft mér að hafa örlitlar væntingar eftir að hafa séð trailerinn. Mér fannst handritið vera frekar stefnu- og innihaldslaust og í rauninni eins og það væri verið að troða skrítnum bröndurum inn hér og þar bara því að þetta átti að vera grínmynd. Laddi fannst mér ágætur í aðalhlutverkinu og Stefán Karl og Stefán Hallur skiluðu sínu en Unnur Birna ætti ekki að leggja leiklistina fyrir sig. Söguþráðurinn var frekar fyrirsjáanlegur og endirinn eins og í flýti gerður. Klippingin fannst mér ekki nógu góð og hefði mátt gera mun betur á því sviði. Myndin skyldi ekkert eftir sig og var ekki virði þeirra peninga sem ég borgaði til þess að sjá hana. Ekki endilega slæm mynd en hún er mjög langt frá því að vera góð.

V for Vendetta


Þessa mynd horfði ég á samhliða því að ég las handrit hennar. Ég hafði reyndar séð myndina þegar hún kom út árið 2005 en þá skyldi hún lítið eftir sig og ákvað ég því að horfa á hana aftur. Mér þótti mjög gaman að bera mynd og handrit saman og það sem kom mér mest á óvart var það hvað handrit er gróflega ritað. Heilum senum sem innihalda aragrúa af smátriðum er pakkað niður í nokkrar setningar í handritinu. Að þessu leiti er handritið stórlega frábrugðið bók og það getur að sjálfsögðu ekki komið í stað bíómyndarinnar.

Eitt sem mér þykir þó alltaf skrítið við bíómyndir sem eru byggðar á bókum er hversu mikið söguþræðinum er breytt. Ég hef reyndar ekki lesið myndasöguna sem þessi bíómynd var byggð á en ég er þó kominn svo langt að hún er á leiðinni til mín í pósti gegnum Amazon. Í staðinn las ég mér til um hlutina sem eru breyttir og þeir eru frekar margir og breyta lokauppgjörinu töluvert. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að klippa út hluti sem skipta minna máli til þess að myndin geti haldist innan ákveðins tímaramma en mín skoðun er sú (og kannski er sú skoðun einfeldningsleg) að bíómynd eftir bók ætti að vera bókin í hreyfimyndum, ekki hreyfimyndir lauslega byggðar á bókinni. Höfundur myndasögunnar, Alan Moore, var t.d. mjög ósáttur með útkomu myndarinnar og sagði að myndin hefði gjörsamlega hundsað boðskap myndasögunnar þ.e. anarkisma. Alan Moore, sem hefur skrifað fjöldan allann af stórmerkilegum myndasögum, er reyndar sagður algjörlega á móti því að sögur hans séu kvikmyndaðar enda finnst honum þær alltaf illa gerðar. Þess má geta að hann hefur svarið þess eið að sjá aldrei myndina Watchmen sem er byggð á myndasögu eftir hann.

Myndin þótti mér betri þegar ég sá hana núna og gæti það verið vegna þess að núna er ég búinn að lesa 1984 eftir George Orwell. Myndasagan sækir marga hluti í bók Orwells þar sem lýðurinn er kúgaður undir sívökulu auga ríkisstjórnarinnar. Myndin dregur upp drungalega framtíðarsýn þar sem fólk býr við stöðugan ótta og þarf að hlýða ýmsum ströngum lögum, t.d. útivistarbanni. Þegar ungri konu að nafni Evey er bjargað frá kónum ríkisstjórnarinnar af skrítnum manni með grímu breytist líf hennar að eilífu. Maðurinn býður henni að sjá stórkostlega flugeldasýningu þar sem hann eyðileggur táknræna byggingu í Lundúnaborg. Eftir þetta samtvinnast líf hennar og mannsins þar sem hún er grunuð um að vera meðsek og verður hún því flóttamaður sem neyðist til að búa hjá hinum sígrímuklædda manni.

Mér þótti Natalie Portman og Hugo Weaving standa sig prýðilega sem hið skrýtna par en skemmtilegastur þótti mér þó John Hurt í hlutverki Sutlers kanslara. Ágætis mynd sem mér finnst alveg eiga skilið sæti sitt númer 181 á lista imd.com yfir bestu myndir allra tíma.

China Town


Myndin China Town eftir Roman Polanski kom út árið 1974. Í aðalhlutverkum eru stórleikararnir Jack Nicholson og Faye Dunaway. Myndin er oft flokkuð með bestu myndum allra tíma og er hún meðal annars í sæti númer 61 á topplista imdb.com. Myndion fjallar um einkaspæjarann Jake Gittes sem er ráðinn til þess að koma upp um framhjáhaldandi eiginmann. Gittes vinnur verkið af hendi en áður en hann veit af hefur það flækt hann í vef lyga, blekkinga og spillingar á háu stigi.

Ég skemmti mér konunglega við að horfa á þessa mynd enda var fátt sem hana vantaði. Leikurinn og handritið voru framúrskarandi og þótti mér Jack Nicholson sérstaklega góður sem einkaspæjarinn JJ Gittes. Söguþráðurinn er fjölbreyttur og kemur manni skemmtilega á óvart. Allt í allt er þessi mynd meistaraverk, vitnisburður þeirrar snilligáfu sem Polanski býr yfir enda virðist allt ganga upp.

Wednesday, September 30, 2009

Afrakstur RIFF



Því miður komst ég ekki á næstum því jafn margar myndir og ég ætlaði en ýmsir hlutir eins og líffræðiritgerð komu í veg fyrir það. Þrátt fyrir þetta náði ég að fara á nokkrar og hér mun ég fjalla um þær.

Sweethearts of The Prison Rodeo


Þessi mynd, sem var gerð í ár og er leikstýrð af Bradley Beesley, fjallar um nokkra fanga, bæði kven- og karlkyns, sem tóku þátt í fangelsisródeói árið 2007. Fylgst er með bæði karla- og kvenhópnum og svo er fjallað ítarlega um nokkra fanga. Mér fannst myndin nokkuð góð og mér fannst skemmtilegast að sjá hvernig ródeó gengur fyrir sig t.d. í þrautum eins og "money the hard way". Þó fannst mér sá galli á myndinni hversu mikla samúð fangarnir voru látnir fá. Ég get einfaldlega ekki fengið mig til þess að finna til með konu sem skaut annan mann í andlitið fyrir smápeninga. Allt í allt góð mynd samt.

Another Planet


Þessa mynd fór ég á án þess að vita mikið um hana. Myndin dregur upp sorglega mynd af börnum sem alast upp við hræðilegar aðstæður og fjallar stuttlega um líf þeirra. Mér fannst myndin oft of hæg til að hafa mikil áhrif auk þess sem maður náði aldrei að nálgast börnin nógu vel til að upplifa myndina eins og ég held að maður hafi átt að upplifa hana. Myndin var samt mjög myndræn og innihélt mörg mjög flott landslagsskot. Ágæt mynd sem hefði líklega getað uppfyllt tilgang sinn mun betur.

Phantom


Þegar ég fór á þessa mynd hugsaði ég mér sko aldeilis gott til glóðarinnar. Ætlunin var nefnilega að sjá norska nasistazombiesplatterinn Dead Snow. Þegar í Háskólabíó var komið var mér og félaga mínum þó tilkynnt að uppselt væri á þá mynd. Við dóum þó ekki ráðalausir heldur spurðum hvaða fleiri myndir væru sýndar á þessum tíma, fyrst við vorum á kvikmyndahátíð á annað borð. Í ljós kemur að portúgölsk mynd að nafni Phantom er einnig sýnd á þessum tíma og, án þess að vita neitt um hana, skelltum við okkur á hana. 10 mínútum, einu sjálfsfróunaratriði og tveimur tottatriðum, þar sem bókstaflega allt var sýnt, löbbuðum við félagarnir út með klígjutilfinningu og hugboð um að við gætum aldrei horft á lífið sömu augum. Ömurlegar 10 mínútur sem innihéldu ekkert nema gróft hommaklám sem er hvorki listrænt né "artý".

North


North, eða Nord upp á frummálið, er frá árinu 2009 og leikstýrt af Rune Denstad Langlo. Myndin fjallar um þunglynda fyrrverandi skíðakappann Jomar sem finnur út að hann á son með gamalli kærustu sinni. Þegar hann kveikir eina nóttina óvart í húsinu sem hann býr í, ákveður hann skyndliega að fara að finna þennan son sinn sem býr norðar í Noregi. Hann leggur af stað á vélsleðanum sínum og lendir í ótal ævintýrum á leiðinni með litríkum persónum sem hann hittir. Þessi mynd kom mér mjög á óvart og er alveg meinfyndin. Kolsvartur húmorinn passar vel inn í melankólíu Jomars. Það sem mér fannst samt best við þessa mynd var persónusköpunin en Jomar hitti hverja yndislegu persónuna á eftir annarri. Frábær mynd.

Dead Snow


Ég heyrði fyrst um þessa mynd fyrir um það bil ári, norsk splattermynd með nasistazombíum. Þessa mynd VARÐ ég að sjá. Síðan þá hafði ég séð myndina þrisvar áður en ég fór loks á hana í bíó núna og hefur hún alltaf staðið fyrir sínu. Upplifunin að sjá hana í bíó var þó rosaleg og mér fannst eins og ég væri að horfa á nýja mynd þegar ég sá hana núna. Myndin þykir mér mjög vel gerð og zombígervin og splatterinn eru mátulega raunveruleg. Myndin er drepfyndin og samtölin og persónurnar eru sannfærandi. Æðisleg mynd sem er fullkomin blanda af spennu og gríni, þessi mynd er tvímælalaust uppáhaldssplattermyndin mín.




Sunday, September 6, 2009

Reykjavík Whale Watching Massacre



Nú er ég nýkominn úr bíóinu eftir að hafa séð fyrstu "hrollvekju" sem hefur verið gerð á Íslandi og ég er einfaldlega í sjokki. Þetta er ein sú allra versta mynd sem ég hef séð í langan tíma. Það sem þarf að nefna fyrst er leikurinn, ég sá ekki einn einasta leikara í þessari mynd sem stóð sig vel, hvað þá yfir meðallagi. Næst á eftir kemur persónusköpunin sem var hörmuleg, maður hafði ekki samúð með neinni persónu og var þessvegna alveg sama þegar hinn og þessi útlendingur féll fyrir hendi álíka illra skapaðra morðingja. Söguþráðurinn fannst mér sundurlaus og atburðirnir gerðust allir í belg og biðu.

Samt voru nokkrir ljósir punktar í henni enda mætti segja að þessi mynd sé svo slæm að hún er svolítið góð. Atriðið þar sem blökkumaðurinn lýsir því yfir að hann sé samkynhneygður er til dæmis eitt það fyndnasta sem ég hef séð en það er samt fyndið af röngum ástæðum.

Mér sýnist þetta einfaldlega vera semi-splatter mynd sem tekur sig alltof alvarlega og verður skítléleg fyrir vikið. Hún fær eina stjörnu frá mér fyrir það að láta hval drepa manneskju með því að draga hana á björgunarbát ofan í sjó.

Sunday, August 23, 2009

Topp 10


1. Fight Club
Self improvement is masturbation. Now self destruction...
Fyrsta og eina myndin sem ég númera á þessum lista er Fight Club. Það er einfaldlega svo margt um hana sem mér líkar við, leikurinn er góður, plottið er framúrskarandi og síðast en ekki síst eru það smáatriðin sem ég hef sérstaklega gaman af. Í hvert skipti sem ég horfi á hana aftur (sem er oftar en ég hef tölu á), þá sé ég eitthvað nýtt. Það skemmir svo ekki fyrir hvað myndin er stútfull af skrýtnum fróðleik, hvaða önnur mynd kennir manni að brjótast inn í hús með freoni eða að búa til napalm (reyndar er uppskriftin í myndinni röng af öryggisástæðum en í bókinni er hún rétt)? Það er einfaldlega eitthvað við þessa mynd sem gerir það að verkum að ég get horft á hana aftur og aftur og í hvert einasta skipti verður hún betri.

2.-10.

Næstu níu myndir listans eru ekki í neinni sérstakri röð enda fer það mjög mikið eftir því í hvernig stuði ég er í hvar ég mundi raða þeim niður.

American Psycho
Jean: What's that?
Patrick Bateman: Duct tape. I need it for... taping something.
Frábær mynd um hinn snargeðveika Patrick Bateman. Christian Bale stendur sig mjög vel í þessu hlutverki og túlkar geðveikina á frábæran hátt. Undirliggjandi húmorinn í myndinni er snilld og þá sérstaklega nafnspjalda atriðið. Góður endir sem er hægt að túlka á ýmsa vegu.

Sin City
The Valkyrie at my side is shouting and laughing with the pure, hateful, bloodthirsty joy of the slaughter... and so am I.
Ég er mikill aðdáandi myndasögunnar og myndin gefur henni ekkert eftir. Hún er skotin nákvæmlega eins og myndasagan sjálf og því er einfaldlega eins og myndirnar hafi lifnað við. Hún lítur mjög vel út og er eitursvöl, ég get varla beðið eftir 2 og 3.

Snatch
You show me how to control a wild fucking gypsy and I'll show you how to control an unhinged, pig-feeding gangster.
Mér finnst fátt skemmtilegra en góð bresk gangstermynd eftir Guy Ritchie og mér þykir þessi sú besta. Brick Top þykir mér einn skemmtilegasti karakter sem hefur verið gerður og svo er plottið framúrskarandi.

Pulp Fiction
Oh, I'm sorry, did I break your concentration?
Uppáhaldsmyndin mín eftir Quentin Tarantino, frábærlega vel skrifuð, snilldar samtöl og persónur. Sögurnar eru tvinnaðar saman á skemmtilegan hátt. Tvíeykið Jules Winnfield og Vincent Vega er frábært.

Donnie Darko
Donnie: Why do you wear that stupid bunny suit?
Frank: Why are you wearing that stupid man suit?
Frábær mynd sem fær mig alltaf til þess að hugsa. Ég elska endinn þar sem Donnie ákveður að fórna sér fyrir fólkið sem hann elskar. Atriðið með Mad World lætur mig alltaf fá svakalegan hroll.

Shi mian mai fu (The House of Flying Daggers)

A rare beauty in the North. She's the finest lady on earth. A glance from her, the whole city goes down. A second glance leaves the nation in ruins. There exists no city or nation that has been more cherished than a beauty like this. A rare beauty in the North. She's the finest lady on earth. A glance from her, the whole city goes down. A second glance leaves the nation in ruins. There exists no city or nation that has been more cherished than a beauty like this.
Fallegasta mynd sem ég hef séð. Hvert atriði er stærra og meira sjónarspil en hið fyrra. Yfirnáttúruleg bardagaatriðin eru frábærlega súrrealísk og maður þarf að vera í sérstöku stuði til að njóta hennar fyllilega. Þessa þarf að horfa á í góðum gæðum á stórum og góðum skjá.

Saving Private Ryan
Fuck Ryan.
Ég hef elskað þessa mynd síðan ég sá hana þegar ég var 8 ára gutti. Besta stríðsmynd sem hefur verið gerð.

In Bruges
Maybe that's what hell is, the entire rest of eternity spent in fucking Bruges.
Ein fyndnasta mynd sem ég hef séð. Kolsvartur húmorinn er túlkaður á framúrskarandi hátt af Colin Farrell. Ekki skemmir fyrir að ég hef komið til Bruges og bærinn er nákvæmlega eins og honum er lýst.

Hauru no ugoku shiro (Howl's Moving Castle)

Sophie: All right Calcifer, lets get cooking.
Calcifer: I don't cook! I'm a scary and powerful fire demon!
Ég er mikill aðdáandi Hayao Miyazaki og mér þykir þessi mynd sú besta eftir hann. Rosalega falleg saga sem er betrumbætt með frábærri tónlist. Fáir sem ég þekki eru tilbúnir til að horfa á anime en þeir sem gera það hafa ekki séð eftir því.