Tuesday, March 16, 2010

Happy End

Happy End er mjög sérstök mynd sem gerist að öllu leiti afturábak. Ég skemmti mér konunglega við áhorf hennar enda er handritið svo vel skrifað að í staðinn fyrir að rugla mann í öfugri röðinni þá gengur það algjörlega upp. Sérstaklega er þó skemmtilegt að sjá fólk borða og hluti eyðileggjast afturábak og samtölin afturábak eru frábær.

Happy End er ferskur blær í kvikmyndum og eina myndin sem ég hef séð fyrir utan hina frábæru Memento sem byggir á sömu hugmynd þó Happy End hafi að sjálfsögðu komið út langt á undan Memento.

Tuesday, March 9, 2010

Salinui chueok



Salinui chueok eða Memories of Murder í leikstjórn Joon-ho Bong fjallar um 2 leynilögreglumenn sem eru að reyna að finna raðmorðingja. Leynilögreglumennirnir svífast einskis við leit morðingjans og nota oft grófar aðferðir til að ná sínu fram, oftast án árangurs.

Myndin hefur mjög flottan drungalegan blæ og það var sennilega það sem mér líkaði best við hana. Leikurinn er auk þess góður og eru það auðvitað persónurnar sem eiga þátt í því að skapa þennan blæ. Ekki var þó laust við að myndin væri langdregin og endirinn fannst mér óneitanlega svekkjandi.

Myndin er þó allt í allt flott glæpasaga sem er vel þess virði að horfa á. Verst er þó að hún er kóresk og nær hún því varla góðri útbreiðslu út fyrir landið þrátt fyrir að hún hafi gert mjög góða hluti í Kóreu.

Tuesday, March 2, 2010

Police Story

Police Story er hasarmynd með leikaranum Jackie Chan í aðalhlutverki. Í myndinni þarf Jackie að kljást við bíræfinn eiturlyfjabarón sem er að reyna að klína morði uppá hann og Jackie þarf að hreinsa mannorð sitt og halda í kærustuna í leiðinni. Söguþráðurinn er svosem ekki upp á marga fiska en það sem gerir þessa mynd sérstaka eru hasaratriðin. Þau eru öll stórfenglega samansett og mikið gert upp úr því að hafa þau sem flottust þar sem frjótt ímyndnarafl hefur verið notað við gerð þeirra.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Jackie Chan en hann öðlaðist mikla virðingu frá mér eftir þessa mynd og þá sérstaklega út af því að hann lék í öllum hasaratriðunum sjálfur og hvílík hasaratriði! Þegar hann stekkur á rafmagnsljósin í verslunarmiðstöðinni er algjört brjálæði enda slasaðist hann alvarlega við gerð þess atriðis en samt ákvað hann að gefast ekki upp og kláraði það með stæl.

Police Story er frábær hasarmynd en hefur lítið annað að bjóða en þennan hasar og því þarf maður að vera í sérstöku skapi til að horfa á hana en ég mæli þó tvímælalaust með henni fyrir ekta hasarmyndaaðdáendur.