Ég lenti í smá vandræðum með það að finna þessa mynd. Upphaflega eintakið af kvikmyndinni Paprika var gamalt, frá árinu 1991. Skrýtið, hugsaði ég með mér enda hélt ég að þetta væri frekar ný mynd. Ég lét það þó ekki stoppa mig enda eru t.d. fjöldamargar Miyazaki myndir ennþá eldri og hófst því áhorf myndarinnar. Við tók annað en ég hafði búist við. Það kemur í ljós að árið 1991 var búin til ljósblá mynd um stúlku sem tekur sér nafnið Paprika þegar hún byrjar að vinna sem vændiskona og ævintýri hennar. Þar sem myndin var á ítölsku og ég textalaus gat ég því miður ekki horft á hana heldur vatt mér í það að finna hina réttu Paprika og gætti mín í þetta skipti á því að hún væri frá 2006.
Paprika frá 1991
Ég er aðdáandi anime mynda og þátta en einu myndirnar sem ég hef séð eru eftir Miyazaki svo ég var spenntur að sjá kvikmynd í fullri lengd eftir annan leikstjóra. Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum með Paprika. Hugmyndin er skemmtileg og vel útfærð auk þess sem myndirnar og tónlistin eru framúrskarandi. Erfitt er að sjá mörkin milli þess veraldlega og andlega og myndin leikur sér svolítið að því að rugla mann. Það verður samt aldrei þreytt enda er handritið gott. Eitt það skemmtilegasta við þessa mynd fannst mér þó að systir mín, sem hefur tjáð mér þónokkrum sinnum að anime sé bara fyrir lúða, dróst að myndinni og fannst hún alveg jafn góð og mér, ef ekki betri. Meðfylgjandi er skemmtilegt og súrrealískt atriði úr myndinni.
5 stig.
ReplyDelete