Saturday, October 31, 2009

Choke

Choke er frá árinu 2008 og er leikstýrt af Clark Gregg. Í aðalhlutverki er Sam Rockwell sem kynlífsfíkillinn Victor Mancini. Myndin er byggð á sögu eins uppáhalds rithöfundarins míns, Chuck Palahniuk, en hann skrifaði einnig bókina Fight Club.

Myndin fjallar um Victor Mancini, kynlífsfíkil sem viðurkennir ekki vandamál sitt heldur fer á stuðningsfundi til þess að næla sér í aðra kynlífsfíkla. Victor er búinn með eitt ár í læknanámi en þegar mamma hans varð mjög slæm af alzheimers hætti hann í skólanum og byrjaði að vinna til þess að geta haft hana á rándýrri meðferðarstofnun. Til þess að hafa efni á meðferðarstofnuninni er Victor búinn að þróa svindl sem felur það í sér að á hverju kvöldi fer hann á veitingastað og treður í sig þar til hann fer að kafna á bita. Þegar hann byrjar að kafna lætur hann öllum illum látum og á endanum kemur alltaf einhver og bjargar honum frá vísum dauðdaga. Kenningin er sú að þegar maður hefur bjargað einhverjum finnist manni maður vera ábyrgur fyrir honum að eilífu. Victor fær því oft peningagjafir frá fólkinu sem hefur bjargað honum gegnum tíðina og þegar hann hefur kafnað oft og mörgum sinnum fara peningarnir að streyma inn jafnt og þétt. Victor réttlætir þetta á því að hann sé í rauninni bara að fá borgað fyrir það að gera eina manneskju að hetju í eitt kvöld. Ofan á þetta allt er Victor ástfanginn af einum lækni á meðferðarstofnuninni og er það í rauninni aðalsöguþráður myndarinnar ásamt því að Victor er að reyna að veiða upp úr mömmu sinni hver pabbi hans sé í rauninni en það reynist erfitt þar sem hún veit sjaldnast hver hann er.

Myndin er ágætlega gerð en hún klikkar einfaldlega á því að útskýra hlutina ekki nógu vel. Það eru mörg atriði sem koma auðveldlega fram í bókinni sem einfaldlega er ekki tími til að troða inn í myndina og því hefur söguþráðurinn ýmsar holur og spurningar sem aldrei er svarað. Ég, hafandi lesið bókina, horfði á myndina með vini mínum sem hafði ekki lesið bókina og hann var ekki alveg viss um hvað hefði gerst í myndinni. Mér finnst í rauninni stærsti gallinn við myndina hversu miklum upplýsingum er reynt að troða inn í hana á of litlum tíma.

Ég held að myndin sé í rauninni ekki þess virði að horfa á án þess að hafa lesið bókina og þykir mér það sorglegt þar sem t.d. Fight Club var komið svo vel til skila á hvíta tjaldinu. Ég held að bókin hafi einfaldlega verið ókvikmyndavæn og það hafi skilað sér í mynd sem kemur henni illa til skila.




The Gold Rush

Við gerð fyrirlestrarins um Charlie Chaplin horfði ég á myndirnar með honum sem mér hafði áskotnast. Af öllum þessum myndum fannst mér þó The Gold Rush frá árinu 1925 standa upp úr. Myndin fjallar um frægustu persónu Chaplins, The Tramp, og för hans til Klondike í leit að gulli. Myndin var upprunalega þögul en Chaplin endurútgaf hana seinna þar sem sögumaður sagði línur allra persónanna og var það útgáfan sem ég sá.

Myndin er full af bráðfyndnum en þó einföldum atriðum og finnst mér það vera helsti kostur hennar, einfaldleikinn. Brandararnir eru að sjálfsögðu flestir án orða og er það oft snilldarlega gert. Til dæmis má nefna atriðið þar sem glorsoltnir gullleitarmennirnir éta skóinn eða brauðdansinn. Þess má einnig til gamans geta að atriðið þar sem Chaplin breytist í kjúkling fyrir augum Big Jim var það fyrsta sinnar tegundar og hefur þetta atriði verið notað ótal sinnum. Ég hef mjög gaman af einföldum húmor sem skilar sér vel án mikillar fyrirhafnar og má þar nefna í sömu andrá Ferd'nand myndasögurnar þar sem öllum húmor er komið til skila með svipbrigðunum einum saman.Myndin er góð blanda af húmor og rómantík og er gaman hvernig þessir tveir hlutir tvinnast saman, t.d. er bráðfyndið atriðið þar sem Chaplin berst fyrir ást Georgiu en er óafvitandi bjargað af fallandi klukku.

The Gold Rush er frábær mynd og eins og áður hefur komið fram mín uppáhalds eftir Charlie Chaplin. Mér finnst mikil synd hversu sjaldgæfur þessi húmor er orðinn í myndum nú til dags þar sem hann er oftar en ekki orðinn óþroskaður og fyrirsjáanlegur.

Tuesday, October 27, 2009

Jóhannes


Þrátt fyrir að hafa ekki komist á myndina á sunnudeginum með restinni af kvikmyndagerðarhópnum fór ég á myndina Jóhannes. Myndin er fyrsta verk Þorsteins Gunnars Bjarnarsonar en hann leikstýrði myndinni og skrifaði handritið. Eins og svo oft á við um íslenskar myndir varð ég fyrir vonbrigðum enda hafði ég leyft mér að hafa örlitlar væntingar eftir að hafa séð trailerinn. Mér fannst handritið vera frekar stefnu- og innihaldslaust og í rauninni eins og það væri verið að troða skrítnum bröndurum inn hér og þar bara því að þetta átti að vera grínmynd. Laddi fannst mér ágætur í aðalhlutverkinu og Stefán Karl og Stefán Hallur skiluðu sínu en Unnur Birna ætti ekki að leggja leiklistina fyrir sig. Söguþráðurinn var frekar fyrirsjáanlegur og endirinn eins og í flýti gerður. Klippingin fannst mér ekki nógu góð og hefði mátt gera mun betur á því sviði. Myndin skyldi ekkert eftir sig og var ekki virði þeirra peninga sem ég borgaði til þess að sjá hana. Ekki endilega slæm mynd en hún er mjög langt frá því að vera góð.

V for Vendetta


Þessa mynd horfði ég á samhliða því að ég las handrit hennar. Ég hafði reyndar séð myndina þegar hún kom út árið 2005 en þá skyldi hún lítið eftir sig og ákvað ég því að horfa á hana aftur. Mér þótti mjög gaman að bera mynd og handrit saman og það sem kom mér mest á óvart var það hvað handrit er gróflega ritað. Heilum senum sem innihalda aragrúa af smátriðum er pakkað niður í nokkrar setningar í handritinu. Að þessu leiti er handritið stórlega frábrugðið bók og það getur að sjálfsögðu ekki komið í stað bíómyndarinnar.

Eitt sem mér þykir þó alltaf skrítið við bíómyndir sem eru byggðar á bókum er hversu mikið söguþræðinum er breytt. Ég hef reyndar ekki lesið myndasöguna sem þessi bíómynd var byggð á en ég er þó kominn svo langt að hún er á leiðinni til mín í pósti gegnum Amazon. Í staðinn las ég mér til um hlutina sem eru breyttir og þeir eru frekar margir og breyta lokauppgjörinu töluvert. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að klippa út hluti sem skipta minna máli til þess að myndin geti haldist innan ákveðins tímaramma en mín skoðun er sú (og kannski er sú skoðun einfeldningsleg) að bíómynd eftir bók ætti að vera bókin í hreyfimyndum, ekki hreyfimyndir lauslega byggðar á bókinni. Höfundur myndasögunnar, Alan Moore, var t.d. mjög ósáttur með útkomu myndarinnar og sagði að myndin hefði gjörsamlega hundsað boðskap myndasögunnar þ.e. anarkisma. Alan Moore, sem hefur skrifað fjöldan allann af stórmerkilegum myndasögum, er reyndar sagður algjörlega á móti því að sögur hans séu kvikmyndaðar enda finnst honum þær alltaf illa gerðar. Þess má geta að hann hefur svarið þess eið að sjá aldrei myndina Watchmen sem er byggð á myndasögu eftir hann.

Myndin þótti mér betri þegar ég sá hana núna og gæti það verið vegna þess að núna er ég búinn að lesa 1984 eftir George Orwell. Myndasagan sækir marga hluti í bók Orwells þar sem lýðurinn er kúgaður undir sívökulu auga ríkisstjórnarinnar. Myndin dregur upp drungalega framtíðarsýn þar sem fólk býr við stöðugan ótta og þarf að hlýða ýmsum ströngum lögum, t.d. útivistarbanni. Þegar ungri konu að nafni Evey er bjargað frá kónum ríkisstjórnarinnar af skrítnum manni með grímu breytist líf hennar að eilífu. Maðurinn býður henni að sjá stórkostlega flugeldasýningu þar sem hann eyðileggur táknræna byggingu í Lundúnaborg. Eftir þetta samtvinnast líf hennar og mannsins þar sem hún er grunuð um að vera meðsek og verður hún því flóttamaður sem neyðist til að búa hjá hinum sígrímuklædda manni.

Mér þótti Natalie Portman og Hugo Weaving standa sig prýðilega sem hið skrýtna par en skemmtilegastur þótti mér þó John Hurt í hlutverki Sutlers kanslara. Ágætis mynd sem mér finnst alveg eiga skilið sæti sitt númer 181 á lista imd.com yfir bestu myndir allra tíma.

China Town


Myndin China Town eftir Roman Polanski kom út árið 1974. Í aðalhlutverkum eru stórleikararnir Jack Nicholson og Faye Dunaway. Myndin er oft flokkuð með bestu myndum allra tíma og er hún meðal annars í sæti númer 61 á topplista imdb.com. Myndion fjallar um einkaspæjarann Jake Gittes sem er ráðinn til þess að koma upp um framhjáhaldandi eiginmann. Gittes vinnur verkið af hendi en áður en hann veit af hefur það flækt hann í vef lyga, blekkinga og spillingar á háu stigi.

Ég skemmti mér konunglega við að horfa á þessa mynd enda var fátt sem hana vantaði. Leikurinn og handritið voru framúrskarandi og þótti mér Jack Nicholson sérstaklega góður sem einkaspæjarinn JJ Gittes. Söguþráðurinn er fjölbreyttur og kemur manni skemmtilega á óvart. Allt í allt er þessi mynd meistaraverk, vitnisburður þeirrar snilligáfu sem Polanski býr yfir enda virðist allt ganga upp.