Wednesday, September 30, 2009

Afrakstur RIFF



Því miður komst ég ekki á næstum því jafn margar myndir og ég ætlaði en ýmsir hlutir eins og líffræðiritgerð komu í veg fyrir það. Þrátt fyrir þetta náði ég að fara á nokkrar og hér mun ég fjalla um þær.

Sweethearts of The Prison Rodeo


Þessi mynd, sem var gerð í ár og er leikstýrð af Bradley Beesley, fjallar um nokkra fanga, bæði kven- og karlkyns, sem tóku þátt í fangelsisródeói árið 2007. Fylgst er með bæði karla- og kvenhópnum og svo er fjallað ítarlega um nokkra fanga. Mér fannst myndin nokkuð góð og mér fannst skemmtilegast að sjá hvernig ródeó gengur fyrir sig t.d. í þrautum eins og "money the hard way". Þó fannst mér sá galli á myndinni hversu mikla samúð fangarnir voru látnir fá. Ég get einfaldlega ekki fengið mig til þess að finna til með konu sem skaut annan mann í andlitið fyrir smápeninga. Allt í allt góð mynd samt.

Another Planet


Þessa mynd fór ég á án þess að vita mikið um hana. Myndin dregur upp sorglega mynd af börnum sem alast upp við hræðilegar aðstæður og fjallar stuttlega um líf þeirra. Mér fannst myndin oft of hæg til að hafa mikil áhrif auk þess sem maður náði aldrei að nálgast börnin nógu vel til að upplifa myndina eins og ég held að maður hafi átt að upplifa hana. Myndin var samt mjög myndræn og innihélt mörg mjög flott landslagsskot. Ágæt mynd sem hefði líklega getað uppfyllt tilgang sinn mun betur.

Phantom


Þegar ég fór á þessa mynd hugsaði ég mér sko aldeilis gott til glóðarinnar. Ætlunin var nefnilega að sjá norska nasistazombiesplatterinn Dead Snow. Þegar í Háskólabíó var komið var mér og félaga mínum þó tilkynnt að uppselt væri á þá mynd. Við dóum þó ekki ráðalausir heldur spurðum hvaða fleiri myndir væru sýndar á þessum tíma, fyrst við vorum á kvikmyndahátíð á annað borð. Í ljós kemur að portúgölsk mynd að nafni Phantom er einnig sýnd á þessum tíma og, án þess að vita neitt um hana, skelltum við okkur á hana. 10 mínútum, einu sjálfsfróunaratriði og tveimur tottatriðum, þar sem bókstaflega allt var sýnt, löbbuðum við félagarnir út með klígjutilfinningu og hugboð um að við gætum aldrei horft á lífið sömu augum. Ömurlegar 10 mínútur sem innihéldu ekkert nema gróft hommaklám sem er hvorki listrænt né "artý".

North


North, eða Nord upp á frummálið, er frá árinu 2009 og leikstýrt af Rune Denstad Langlo. Myndin fjallar um þunglynda fyrrverandi skíðakappann Jomar sem finnur út að hann á son með gamalli kærustu sinni. Þegar hann kveikir eina nóttina óvart í húsinu sem hann býr í, ákveður hann skyndliega að fara að finna þennan son sinn sem býr norðar í Noregi. Hann leggur af stað á vélsleðanum sínum og lendir í ótal ævintýrum á leiðinni með litríkum persónum sem hann hittir. Þessi mynd kom mér mjög á óvart og er alveg meinfyndin. Kolsvartur húmorinn passar vel inn í melankólíu Jomars. Það sem mér fannst samt best við þessa mynd var persónusköpunin en Jomar hitti hverja yndislegu persónuna á eftir annarri. Frábær mynd.

Dead Snow


Ég heyrði fyrst um þessa mynd fyrir um það bil ári, norsk splattermynd með nasistazombíum. Þessa mynd VARÐ ég að sjá. Síðan þá hafði ég séð myndina þrisvar áður en ég fór loks á hana í bíó núna og hefur hún alltaf staðið fyrir sínu. Upplifunin að sjá hana í bíó var þó rosaleg og mér fannst eins og ég væri að horfa á nýja mynd þegar ég sá hana núna. Myndin þykir mér mjög vel gerð og zombígervin og splatterinn eru mátulega raunveruleg. Myndin er drepfyndin og samtölin og persónurnar eru sannfærandi. Æðisleg mynd sem er fullkomin blanda af spennu og gríni, þessi mynd er tvímælalaust uppáhaldssplattermyndin mín.




Sunday, September 6, 2009

Reykjavík Whale Watching Massacre



Nú er ég nýkominn úr bíóinu eftir að hafa séð fyrstu "hrollvekju" sem hefur verið gerð á Íslandi og ég er einfaldlega í sjokki. Þetta er ein sú allra versta mynd sem ég hef séð í langan tíma. Það sem þarf að nefna fyrst er leikurinn, ég sá ekki einn einasta leikara í þessari mynd sem stóð sig vel, hvað þá yfir meðallagi. Næst á eftir kemur persónusköpunin sem var hörmuleg, maður hafði ekki samúð með neinni persónu og var þessvegna alveg sama þegar hinn og þessi útlendingur féll fyrir hendi álíka illra skapaðra morðingja. Söguþráðurinn fannst mér sundurlaus og atburðirnir gerðust allir í belg og biðu.

Samt voru nokkrir ljósir punktar í henni enda mætti segja að þessi mynd sé svo slæm að hún er svolítið góð. Atriðið þar sem blökkumaðurinn lýsir því yfir að hann sé samkynhneygður er til dæmis eitt það fyndnasta sem ég hef séð en það er samt fyndið af röngum ástæðum.

Mér sýnist þetta einfaldlega vera semi-splatter mynd sem tekur sig alltof alvarlega og verður skítléleg fyrir vikið. Hún fær eina stjörnu frá mér fyrir það að láta hval drepa manneskju með því að draga hana á björgunarbát ofan í sjó.