Þessa mynd horfði ég á samhliða því að ég las handrit hennar. Ég hafði reyndar séð myndina þegar hún kom út árið 2005 en þá skyldi hún lítið eftir sig og ákvað ég því að horfa á hana aftur. Mér þótti mjög gaman að bera mynd og handrit saman og það sem kom mér mest á óvart var það hvað handrit er gróflega ritað. Heilum senum sem innihalda aragrúa af smátriðum er pakkað niður í nokkrar setningar í handritinu. Að þessu leiti er handritið stórlega frábrugðið bók og það getur að sjálfsögðu ekki komið í stað bíómyndarinnar.
Eitt sem mér þykir þó alltaf skrítið við bíómyndir sem eru byggðar á bókum er hversu mikið söguþræðinum er breytt. Ég hef reyndar ekki lesið myndasöguna sem þessi bíómynd var byggð á en ég er þó kominn svo langt að hún er á leiðinni til mín í pósti gegnum Amazon. Í staðinn las ég mér til um hlutina sem eru breyttir og þeir eru frekar margir og breyta lokauppgjörinu töluvert. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að klippa út hluti sem skipta minna máli til þess að myndin geti haldist innan ákveðins tímaramma en mín skoðun er sú (og kannski er sú skoðun einfeldningsleg) að bíómynd eftir bók ætti að vera bókin í hreyfimyndum, ekki hreyfimyndir lauslega byggðar á bókinni. Höfundur myndasögunnar, Alan Moore, var t.d. mjög ósáttur með útkomu myndarinnar og sagði að myndin hefði gjörsamlega hundsað boðskap myndasögunnar þ.e. anarkisma. Alan Moore, sem hefur skrifað fjöldan allann af stórmerkilegum myndasögum, er reyndar sagður algjörlega á móti því að sögur hans séu kvikmyndaðar enda finnst honum þær alltaf illa gerðar. Þess má geta að hann hefur svarið þess eið að sjá aldrei myndina Watchmen sem er byggð á myndasögu eftir hann.
Myndin þótti mér betri þegar ég sá hana núna og gæti það verið vegna þess að núna er ég búinn að lesa 1984 eftir George Orwell. Myndasagan sækir marga hluti í bók Orwells þar sem lýðurinn er kúgaður undir sívökulu auga ríkisstjórnarinnar. Myndin dregur upp drungalega framtíðarsýn þar sem fólk býr við stöðugan ótta og þarf að hlýða ýmsum ströngum lögum, t.d. útivistarbanni. Þegar ungri konu að nafni Evey er bjargað frá kónum ríkisstjórnarinnar af skrítnum manni með grímu breytist líf hennar að eilífu. Maðurinn býður henni að sjá stórkostlega flugeldasýningu þar sem hann eyðileggur táknræna byggingu í Lundúnaborg. Eftir þetta samtvinnast líf hennar og mannsins þar sem hún er grunuð um að vera meðsek og verður hún því flóttamaður sem neyðist til að búa hjá hinum sígrímuklædda manni.
Mér þótti Natalie Portman og Hugo Weaving standa sig prýðilega sem hið skrýtna par en skemmtilegastur þótti mér þó John Hurt í hlutverki Sutlers kanslara. Ágætis mynd sem mér finnst alveg eiga skilið sæti sitt númer 181 á lista imd.com yfir bestu myndir allra tíma.
Skemmtileg íronía að hafa John Hurt í hlutverki stóra bróður, þegar hann lék aðalhlutverkið (og góða kallinn) í 1984...
ReplyDeleteEitt sem mér fannst líka skemmtilegt í þessari mynd var tengingin við söguna, þ.e. Guy Fawkes og uppreisnartilraunina í Englandi 1605.
Fín færsla. 5 stig.