Choke er frá árinu 2008 og er leikstýrt af Clark Gregg. Í aðalhlutverki er Sam Rockwell sem kynlífsfíkillinn Victor Mancini. Myndin er byggð á sögu eins uppáhalds rithöfundarins míns, Chuck Palahniuk, en hann skrifaði einnig bókina Fight Club.
Myndin fjallar um Victor Mancini, kynlífsfíkil sem viðurkennir ekki vandamál sitt heldur fer á stuðningsfundi til þess að næla sér í aðra kynlífsfíkla. Victor er búinn með eitt ár í læknanámi en þegar mamma hans varð mjög slæm af alzheimers hætti hann í skólanum og byrjaði að vinna til þess að geta haft hana á rándýrri meðferðarstofnun. Til þess að hafa efni á meðferðarstofnuninni er Victor búinn að þróa svindl sem felur það í sér að á hverju kvöldi fer hann á veitingastað og treður í sig þar til hann fer að kafna á bita. Þegar hann byrjar að kafna lætur hann öllum illum látum og á endanum kemur alltaf einhver og bjargar honum frá vísum dauðdaga. Kenningin er sú að þegar maður hefur bjargað einhverjum finnist manni maður vera ábyrgur fyrir honum að eilífu. Victor fær því oft peningagjafir frá fólkinu sem hefur bjargað honum gegnum tíðina og þegar hann hefur kafnað oft og mörgum sinnum fara peningarnir að streyma inn jafnt og þétt. Victor réttlætir þetta á því að hann sé í rauninni bara að fá borgað fyrir það að gera eina manneskju að hetju í eitt kvöld. Ofan á þetta allt er Victor ástfanginn af einum lækni á meðferðarstofnuninni og er það í rauninni aðalsöguþráður myndarinnar ásamt því að Victor er að reyna að veiða upp úr mömmu sinni hver pabbi hans sé í rauninni en það reynist erfitt þar sem hún veit sjaldnast hver hann er.
Myndin er ágætlega gerð en hún klikkar einfaldlega á því að útskýra hlutina ekki nógu vel. Það eru mörg atriði sem koma auðveldlega fram í bókinni sem einfaldlega er ekki tími til að troða inn í myndina og því hefur söguþráðurinn ýmsar holur og spurningar sem aldrei er svarað. Ég, hafandi lesið bókina, horfði á myndina með vini mínum sem hafði ekki lesið bókina og hann var ekki alveg viss um hvað hefði gerst í myndinni. Mér finnst í rauninni stærsti gallinn við myndina hversu miklum upplýsingum er reynt að troða inn í hana á of litlum tíma.
Ég held að myndin sé í rauninni ekki þess virði að horfa á án þess að hafa lesið bókina og þykir mér það sorglegt þar sem t.d. Fight Club var komið svo vel til skila á hvíta tjaldinu. Ég held að bókin hafi einfaldlega verið ókvikmyndavæn og það hafi skilað sér í mynd sem kemur henni illa til skila.
Góð færsla. 5 stig.
ReplyDeleteÉg var einmitt að pæla í því hvort þessi mynd væri þess virði að horfa á - hef yfirleitt alltaf gaman af Sam Rockwell... Læt þessa kannski vera og kíki í staðinn á Moon...