Saturday, October 31, 2009

The Gold Rush

Við gerð fyrirlestrarins um Charlie Chaplin horfði ég á myndirnar með honum sem mér hafði áskotnast. Af öllum þessum myndum fannst mér þó The Gold Rush frá árinu 1925 standa upp úr. Myndin fjallar um frægustu persónu Chaplins, The Tramp, og för hans til Klondike í leit að gulli. Myndin var upprunalega þögul en Chaplin endurútgaf hana seinna þar sem sögumaður sagði línur allra persónanna og var það útgáfan sem ég sá.

Myndin er full af bráðfyndnum en þó einföldum atriðum og finnst mér það vera helsti kostur hennar, einfaldleikinn. Brandararnir eru að sjálfsögðu flestir án orða og er það oft snilldarlega gert. Til dæmis má nefna atriðið þar sem glorsoltnir gullleitarmennirnir éta skóinn eða brauðdansinn. Þess má einnig til gamans geta að atriðið þar sem Chaplin breytist í kjúkling fyrir augum Big Jim var það fyrsta sinnar tegundar og hefur þetta atriði verið notað ótal sinnum. Ég hef mjög gaman af einföldum húmor sem skilar sér vel án mikillar fyrirhafnar og má þar nefna í sömu andrá Ferd'nand myndasögurnar þar sem öllum húmor er komið til skila með svipbrigðunum einum saman.Myndin er góð blanda af húmor og rómantík og er gaman hvernig þessir tveir hlutir tvinnast saman, t.d. er bráðfyndið atriðið þar sem Chaplin berst fyrir ást Georgiu en er óafvitandi bjargað af fallandi klukku.

The Gold Rush er frábær mynd og eins og áður hefur komið fram mín uppáhalds eftir Charlie Chaplin. Mér finnst mikil synd hversu sjaldgæfur þessi húmor er orðinn í myndum nú til dags þar sem hann er oftar en ekki orðinn óþroskaður og fyrirsjáanlegur.

1 comment:

  1. Gott að heyra að þú hafðir gaman af Chaplin. Hann er mikill snillingur. Ég var búinn að steingleyma að útgáfan sem ég var með inni á tölvunni var þessi endurútgáfa, annars hefði ég nú líkast til reynt að finna betri útgáfu... Það er þó skömminni skárra að hann gerði þessa útgáfu sjálfur (og er sjálfur sögumaður)...

    4 stig.

    ReplyDelete