Sunday, February 28, 2010

Blow

Blow er sönn saga um eiturlyfjabaróninn George Jung (Johnny Depp) og það hvernig hann fór frá því að fikta við gras í það að verða alræmdasti dópsmyglari og sali Bandaríkjanna. Myndin er mjög góð enda saga George Jung alveg ótrúleg og ekki skemmir fyrir stórgóð túlkun Johnny Depp á honum. Sagan er bæði mjög fyndin og dramatísk og hrífur áhorfandann með þar sem Jung fær alla manns samúð. Í rauninni er eins og Jung sé að upplifa ameríska drauminn þar sem hann fer frá engu yfir í það að vera multi milljóner og er í rauninni bara óheppilegt að hann skyldi velja sér þennan vetvang til þess að gera það.

Ég mæli hiklaust með Blow enda er hún stórgóð glæpamynd sem gefur myndum eins og Goodfellas og American Gangster lítið eftir.

The Invention of Lying


The Invention of Lying er nýjasta mynd grínistans Ricky Gervais og skartar hún honum einnig í aðalhltuverki. Myndin segir sögu af Mark Bellison (Gervais) sem lifir í heimi þar sem lygin hefur ekki verið fundin upp. Einn daginn þegar Bellison er kominn á vonarvöl vegna paningaskorts og veikinda móður sinnar fær hann þá hugdettu að segja eitthvað sem er ekki satt. Í framhaldinu fer Bellison að lifa draumalífinu þar sem hann getur öðlast frægð og peninga með því einu að ljúga og það besta er að allir trúa honum. Það fer þó að síga á ógæfuhliðina fyrir honum þegar hann skáldar óvart upp trúarbrögð (alls óþekktan hlut) á dánarbeði móður sinnar. Á milli þess er hann að reyna að öðlast ást hinnar fögru Anna McDoogles (Jennifer Garner) sem vill lítið með hann hafa og skefur ekki undan því af hverju enda er Bellison lítill og feitur og hún að sjálfsögðu ótrúlega hreinskilin.

The Invention of Lying er ágætis mynd sem býður upp á margar skemmtilegar senur vegna þess hversu fólk er opinskátt of hreinskilið. Myndin verður þó aðeins lakari við gervitrúarbrögð Bellison enda er þetta alls ódulin ádeila á kristni sem verður kannski aðeins of mikil á köflum.

Sem mikill aðdáandi Ricky Gervais horfði ég á þessa mynd með nokkrum væntingum og varð þó ekki fyrir vonbrigðum. Ágætis grínmynd sem fær mann þó til þess að hugsa.

Up in the Air


Up in the Air fjallar um Ryan Bingham (George Clooney), mann sem hefur það að atvinnu að reka fólk. Bingham vinnur fyrir fyrirtæki sem sérhæfir sig í brottrekstri starfsmanna fyrir forstjóra sem eru of miklar skræfur til að gera það sjálfir. Bingham er sá besti í sínu starfi og flýgur út um öll Bandaríkin til að sinna því á milli þess sem hann flytur fyrirlestra um það hvernig hægt sé að ferðast án fyrirhafnar. Einn daginn er hann þó kallaður inn og sýnt framtíðina í bransanum, brottrekstur starfsmanna gegnum internetið, sem er hannað af nýliðanum Natalie Keener (Anna Kendrick). Bingham líst ekkert á þetta og bíðst til þess að sýna Keener hvað starfið hans snýst um. Myndin fjallar svo um ferð Binghams og Keener um Bandaríkin þar sem þau reka hvern starfsmanninn á eftir öðrum á milli þess sem Bingham á í ástarsambandi við hina víðförulu Alex Goran (Vera Farmiga).

Up in the Air er stórgóð mynd sem skilur þó nokkuð eftir sig. George Clooney er frábær í hlutverki sínu sem skítseyðið Bingham og er í rauninni svo góður að hann fær alla manns samúð. Kendrick er auk þess góð sem hin óveraldarvana Keener og sambandið milli Clooney's og Farmiga er mjög vel leikið og sannfærandi. Starfsfólkið sem er verið að reka er sérstaklega sannfærandi og er það vegna þess að fólkið sem lék það var valið vegna þess að það hafði verið rekið fyrir stuttu í alvörunni og það látið endurupplifa atburðinn.

Ég mæli tvímælalaust með Up in the Air þar sem hún inniheldur stórgóða sögu, leik og persónur.

Jackass 2


Jackass 2 er önnur myndin í fullri lengd eftir vitleysingana í Jackass hópnum. Myndin er alveg eins og þættirnir og fyrri myndin þar sem hún hefur engan söguþráð heldur sýnir hún eingöngu klippur af vitleysingum að gera vitlausa hluti. Þrátt fyrir að fylgja sömu formúlu og áður er myndin tvímælalaust betri en sú fyrri og er í rauninni alveg sprenghlægileg. Frjótt ímyndunarafl vitleysinganna og sjálfseyðingarhvöt þeirra myndar fullkomna blöndu af hálfvitaleik sem kitlar hláturtaugarnar allrækilega.

Svo virðist sem Jackass hópurinn styrkist með hverri mynd og er það gott því Jackass 3 er á næsta leiti. Þrátt fyrir það að húmor myndanna hafi oft verið flokkaður sem lélegur og barnalegur þá bíð ég tvímælalaust spenntur eftir næstu mynd.

Final Destination 4


Final Destination er, eins og nafnið gefur til kynna, fjórða myndin í hinum klassíska Final Destination myndabálki. Myndin skartar eins og venjulega alls óþekktum leikurum í aðalhlutverki og er tiltölulega low budget. Skemmtileg nýjung við þessa myn er þó að hana er hægt að horfa á í þrívídd og er það greinilega þannig sem menn hugsuðu sér að myndin mundi græða.

Myndin fylgir nákvæmlega sömu formúlu og hinar myndirnar. Hópur fólks lifir af stórslys af tilviljun og núna er dauðinn á eftir þeim til að klára það sem hann byrjaði á. Þrátt fyrir að fókið eigi við ofurefli að etja reynir það þó að sporna við dauðanum með ýmsum hætti og telja sig hafa tekist það. Það er þó ekki raunin og í staðinn fær áhorfandinn að sjá dauðdaga hvers og eins sem eru oftar en ekki fáránlegir (á góðan hátt) og jaðra oft við splatter.

Final Destiantion 4 er arfaslök mynd sem á þó sína spretti. Get samt ekki sagt að ég mæli með henni.

Cop Out


Cop Out er grín-hasarmynd með Bruce Willis og Tracy Morgan í aðalhlutverki. Myndin fjallar um Jimmy Monroe (Willis) sem ætlar að greiða fyrir brúðkaup dóttur sinnar með fágætu hafnaboltaspjaldi. Allt fer þó í háaloft þegar spjaldinu er stolið og fær hann því félaga sinn Paul Hodges (Morgan) til þess að ná kortinu aftur með sér.

Cop Out er ágætis mynd sem er vel þess virði að horfa á ef maður er í skapi fyrir svona mynd. Willis og Morgan eru báðir góðir í hlutverkum sínum auk þess sem Sean William Scott kemur á óvart. Þó að það sé ekki boðið upp á neitt nýtt með þessari mynd er hún ágætis skemmtun.

Wednesday, February 24, 2010

Into the Blue


Kvikmyndin Into the Blue sem skartar Jessicu Alba í aðalhlutverki fjallar um ungt par sem stundar köfun á Bahama eyjum. Parið finnur fjársjóð í sokknu skipi en að þeim óafvitandi eru kókaínsmyglarar í nágrenninu að leita að flugvél sem hefur brotlent með kókaínfarm og kæra sig ekki um að þau séu að snuðra á svæðinu.

Into the Blue er hræðileg mynd sem er byggð utan um eina heita gellu og einn heitann gaur til þess að raka inn sem miklum pening og hægt er. Myndinni hefur því miður án efa tekis ætlunarverk sitt. Það eina góða við myndina eru flottar neðansjávartökur og áðurnefnd heit gella.

Tuesday, February 23, 2010

Man Bites Dog


Kvikmyndin Man Mites Dog í leikstjórn Rémy Belvaux, André Bonzel og Benoît Poelvoorde frá árinu 1992 fjallar um fjöldamorðingja sem er eltur af kvikmyndatökuliði. Tökuliðið fylgir manninum eftir og sogast smátt og smátt inn í atburðarásina þar sem maðurinn fer um og drepur það sem honum sýnist. Maðurinn er leikinn af Benoît Poelvoorde og er góður í hlutverki sínu sem algjörlega siðlaus morðingi.

Myndin er fyrst og fremst skrýtin en þó ekki á slæman hátt. Hú fær mann einhvern veginn til þess að hrífast með og lætur manni svo líða illa fyrir það með hrottalegu nauðgunaratriðinu í endann. Frekar góð mynd sem skilur klárlega eitthvað eftir sig.