Monday, November 30, 2009

Fear and Loathing in Las Vegas



Þegar rithöfundinum Hunter S. Thompson var falið það verkefni að skrifa um Mint 400 mótorhjólakeppnina í Las Vegas ákvað hann að að eins ein leið væri til þess að umfjöllunin yrði góð. Hann þyrfti að innbyrða mikið magn af stórhættulegum lyfjum. Eftir þessa för til Las Vegas skrifaði hann 15000 orða grein, þrátt fyrir að hann hefði verið beðinn um að skrifa eingöngu 1500 orð, um bæði kappaksturinn og reynsluna af þessari stórmerkilegu ferð. Greininni var hafnað sem mesta bulli og var hún aldrei birt í blaðinu sem ætlaði að kaupa hana. Hunter endurskrifaði þá greinina og birti hana í tímaritinu Rolling Stone þar sem hún var birt í tveimur hlutum. Seinni hluti greinarinnar var um aðra ferð hans til borgarinnar þar sem hann skrifaði, frekar kaldhæðnislega, um eiturlyfjaráðstefnu sem var haldin af lögreglunni. Þessar tvær greinar var síðan gefnar út á bókarformi sem sagan Fear and Loathing in Las Vegas. Sagan er örlítið ýkt frásögn af ævintýri Hunters en í sögunni kýs hann að kalla sig Raoul Duke. Með í för er lögfræðingurinn hans Dr Gonzo sem er einnig byggður á vini Hunters, Oscar Z. Acosta, sem var þekktur fyrir villt skemmtanalíf sitt.



Upprunalega coverið á fyrri hluta sögunnar



Hunter S. Thompson og Oscar Z. Acosta


Í Fear and Loathing in Las Vegas er ameríski draumurinn gegnumgangandi þema en ein aðalástæðan fyrir því að félagarnir taka verkefnið að sér er leitin að honum. Því er líst á tregafullan hátt hvernig hippatímabilið er búið, enda gerist sagan 1971, og það hvernig menn eru hættar að taka lyf sem örva skynjunina og vilja frekar taka lyf sem setja mann í deyfðan vímusvefn. Hunter harmar það að menn séu hættir að berjast gegn valdinu og kallar það dauða ameríska draumsins og því er leit þeirra félaga að honum dæmd til að vera árangurslaus.


Eftir að hafa rekist á bókina ákvað ég að taka Fear and Loathing rispu og horfa á myndina strax eftir að lestri bókarinnar var lokið. Bæði bókin og myndin er mjög ruglingsleg og kemur það mjög vel út enda er Raoul í vímu mestallan tímann. Myndin er bókinni trú í flestum hlutum sem mér líkar mjög vel við enda tel ég að þegar mynd breytir söguþræði bókar þá sé einfaldlega komin önnur saga sem á í rauninni ekki að kenna við bókina. Þó er ruglingurinn ákveðinn galli á myndinni enda skilur maður oft ekki hvað persónurnar eru að segja í því annarlega ástandi sem þær eru í og er ég þakklátur fyrir að hafa lesið bókina fyrst því annars held ég að ég hefði lítið skilið í myndinni. Myndatakan og klippingin er rosalega góð og hárrétt blanda af þessum tveimur hlutum nær að skila vímunni á skjáinn svo maður fer sjálfur að spurja sig hvort maður sé kannski búinn að innbyrða eitthvað sjálfur.


Þessu til stuðnings er hér brot af því þegar félagarnir koma á hótel í LSD vímu og vænisýki og hræðsla er næstum búin að gera út af við Raoul.




Handritið af myndinni hafði verið til lengi áður en myndin var loksins gerð vegna ýmissa vandamála. Eitt stærsta vandamálið var að finna réttu leikarana og voru fjöldamargir stórleikarar orðaðir við hlutverkið. Eftir að hafa hitt Johnny Depp, sem leikur Raoul Duke, ákvað Hunter Thompson þó að hann væri fullkominn í hlutverkið og enginn annar skildi fá að leika hlutverk Duke. Johnny Depp fylgdi svo Hunter í hvert fótmál í 4 mánuði fyrir tökur til þess að herma eftir talmáli hans og háttum. Á þessum tíma urðu þeir miklir vinir og þess má geta að Depp er að fara að leika Hunter aftur í fyrstu bók hans, The Rum Diary.


Þrátt fyrir að myndin sé stórgóð þá verð ég að segja að í þessu tilviki er bókin betri. Þó að myndavélin geti ruglað mann töluvert þá er ekkert betra í því en ímyndunaraflið og því hverfur maður alveg inn í heim Raouls við lestur bókarinnar.

Wednesday, November 25, 2009

2012 - We Didn't Listen!


2012 er stórslysamynd í leikstjórn Roland Emmerich en hann hefur gert fleiri stórslysamyndir á borð við hina stórkostlegu Godzilla og The Day After Tomorrow. Myndin fjallar um heimsendinn sem Majarnir spáðu fyrir árið 2012 þegar heimurinn á að farast í stórum flóðbylgjum en það á að marka endi 4. tímabils mannsins á jörðinni (Það hefur þó komið í ljós að Majarnir spáðu ekki fyrir um neinn slíkan hlut heldur var þetta einfaldlega oftúlkun hamfaraspámanna).

Myndin er ekkert annað en stórslysamynd og rétt eins og Rambo IV átti ekki að vera neitt annað en sjúklega svalur gæi að drepa asíubúa þá skilar þessi mynd algjörlega því sem við mátti búast af henni. Tæknibrellurnar eru flottar en fátt annað við myndina er flott. Leikurinn er í meðallagi og söguþráðurinn einnig en það er bara í fínasta lagi enda veit maður algjörlega hvað maður er að fara að horfa á. Þessi mynd er algjörlega þess virði að sjá ef maður er í stuði til þess að slökkva á heilanum og sjá flott sjónarspil.

Paranormal Activity


Paranormal Activity er hryllingsmynd gerð af Oren Peli. Myndin var gríðarlega ódýr í framleiðslu en hún kostaði aðeins 15000$. Þessi ódýri framleiðslukostnaður stafaði af því að myndin er nær eingöngu tekin upp í einu húsi sem er hús leikstjórans og aðalleikaranir eru vinir leikstjórans. Myndin hefur fengið mikla umfjöllun og hefur verið "hype-uð" rosalega upp.

Ég var hrifinn af Paranormal Activity enda er hér á ferð mjög low-budget mynd sem virkar frekar vel. Söguþráðurinn er ágætur en myndin fjallar um par sem lifir góðu lífi í Bandaríkjunum. Konan hefur þó þann vangalla að henni fylgir alltaf einhver draugur sem hún getur ekki losað sig við, hversu oft sem hún flytur. Parið ákveður í sameiningu að reyna að taka þennan draug upp á kvikmyndatökuvél og láta hana rúlla á nóttunni enda er það þá sem vætturinn lætur sjá sig. Myndin skiptist í dag og nótt þar sem skringilegir atburðir gerast á nóttunni og parið horfir á þessa skrýtnu atburði á daginn. Alvara atburðanna fer stigmagnandi og alltaf verður meira spenna eftir því sem hver nótt líður.

Leikurinn er fínn og skemmtilegt var að sjá hvað samband parsins er "ekta" enda eru þau par í alvörunni. Það sem mér fannst líklegast best við myndina er að draugurinn er aldrei sýndur en það er það sem flestar hryllingmyndar klikka á. Þegar búið er að byggja upp spennuna rétt þá geta tæknibrellur aldrei jafnast á við ímyndunarafl áhorfandans svo maður verður alltaf fyrir vonbrigðum.

Paranormal Activity er góð mynd sem sýnir að góð hugmynd er alltaf betri en góðar tæknibrellur. Þrátt fyrir þetta verð ég að segja að hún er ekki næstum því jafn hryllileg og hún er sögð vera og mér finnst hún klárlega of "hype-uð".

Tuesday, November 10, 2009

Some Like It Hot

Some Like It Hot er gamanmynd frá árinu 1959 í leikstjórn Billy Wilder. Með aðalhlutverk fara Marilyn Monroe, Tony Curtis og Jack Monroe. Myndin fjallar um 2 tónlistarmenn sem verða vitni að morði af hendi mafíunnar. Til að komast undan klæðast þeir í drag og ganga í kvennahljómsveit. Á leiðinni til Miami með hljómsveitinni verður svo annar þeirra ástfanginn af öðrum hljómsveitarmeðlim og beitir ýmsum bellibrögðum til að næla í hana. Að lokum kárnar gamanið þegar mafían heldur ráðstefnu á hótelinu þar sem hljómsveitin er að spila og endar þetta allt í bráðskemmtilegum hasar.

Enskukennarinn minn í grunnskóla er mikill áhugamaður um kvikmyndir og ákvað hann að sýna okkur þessa eitt sinn. Rétt eins og þá skemmti ég mér konunglega við áhorf myndarinnar og jafnvel betur núna þegar ég skildi meira. Einn skemmtilegur hlutur sem enskukennarinn minn komst ekki hjá að láta út úr sér var sá að Jack Lemmon hafi í alvörunni haft mjög gaman af því að klæða sig í drag en ég sel það ekki dýrar en ég keypti það. Frábær gamanmynd með frábærum leikurum og skemmtilgum söguþræði.