Þegar rithöfundinum Hunter S. Thompson var falið það verkefni að skrifa um Mint 400 mótorhjólakeppnina í Las Vegas ákvað hann að að eins ein leið væri til þess að umfjöllunin yrði góð. Hann þyrfti að innbyrða mikið magn af stórhættulegum lyfjum. Eftir þessa för til Las Vegas skrifaði hann 15000 orða grein, þrátt fyrir að hann hefði verið beðinn um að skrifa eingöngu 1500 orð, um bæði kappaksturinn og reynsluna af þessari stórmerkilegu ferð. Greininni var hafnað sem mesta bulli og var hún aldrei birt í blaðinu sem ætlaði að kaupa hana. Hunter endurskrifaði þá greinina og birti hana í tímaritinu Rolling Stone þar sem hún var birt í tveimur hlutum. Seinni hluti greinarinnar var um aðra ferð hans til borgarinnar þar sem hann skrifaði, frekar kaldhæðnislega, um eiturlyfjaráðstefnu sem var haldin af lögreglunni. Þessar tvær greinar var síðan gefnar út á bókarformi sem sagan Fear and Loathing in Las Vegas. Sagan er örlítið ýkt frásögn af ævintýri Hunters en í sögunni kýs hann að kalla sig Raoul Duke. Með í för er lögfræðingurinn hans Dr Gonzo sem er einnig byggður á vini Hunters, Oscar Z. Acosta, sem var þekktur fyrir villt skemmtanalíf sitt.
Upprunalega coverið á fyrri hluta sögunnar
Hunter S. Thompson og Oscar Z. Acosta
Í Fear and Loathing in Las Vegas er ameríski draumurinn gegnumgangandi þema en ein aðalástæðan fyrir því að félagarnir taka verkefnið að sér er leitin að honum. Því er líst á tregafullan hátt hvernig hippatímabilið er búið, enda gerist sagan 1971, og það hvernig menn eru hættar að taka lyf sem örva skynjunina og vilja frekar taka lyf sem setja mann í deyfðan vímusvefn. Hunter harmar það að menn séu hættir að berjast gegn valdinu og kallar það dauða ameríska draumsins og því er leit þeirra félaga að honum dæmd til að vera árangurslaus.
Eftir að hafa rekist á bókina ákvað ég að taka Fear and Loathing rispu og horfa á myndina strax eftir að lestri bókarinnar var lokið. Bæði bókin og myndin er mjög ruglingsleg og kemur það mjög vel út enda er Raoul í vímu mestallan tímann. Myndin er bókinni trú í flestum hlutum sem mér líkar mjög vel við enda tel ég að þegar mynd breytir söguþræði bókar þá sé einfaldlega komin önnur saga sem á í rauninni ekki að kenna við bókina. Þó er ruglingurinn ákveðinn galli á myndinni enda skilur maður oft ekki hvað persónurnar eru að segja í því annarlega ástandi sem þær eru í og er ég þakklátur fyrir að hafa lesið bókina fyrst því annars held ég að ég hefði lítið skilið í myndinni. Myndatakan og klippingin er rosalega góð og hárrétt blanda af þessum tveimur hlutum nær að skila vímunni á skjáinn svo maður fer sjálfur að spurja sig hvort maður sé kannski búinn að innbyrða eitthvað sjálfur.
Þessu til stuðnings er hér brot af því þegar félagarnir koma á hótel í LSD vímu og vænisýki og hræðsla er næstum búin að gera út af við Raoul.
Handritið af myndinni hafði verið til lengi áður en myndin var loksins gerð vegna ýmissa vandamála. Eitt stærsta vandamálið var að finna réttu leikarana og voru fjöldamargir stórleikarar orðaðir við hlutverkið. Eftir að hafa hitt Johnny Depp, sem leikur Raoul Duke, ákvað Hunter Thompson þó að hann væri fullkominn í hlutverkið og enginn annar skildi fá að leika hlutverk Duke. Johnny Depp fylgdi svo Hunter í hvert fótmál í 4 mánuði fyrir tökur til þess að herma eftir talmáli hans og háttum. Á þessum tíma urðu þeir miklir vinir og þess má geta að Depp er að fara að leika Hunter aftur í fyrstu bók hans, The Rum Diary.
Þrátt fyrir að myndin sé stórgóð þá verð ég að segja að í þessu tilviki er bókin betri. Þó að myndavélin geti ruglað mann töluvert þá er ekkert betra í því en ímyndunaraflið og því hverfur maður alveg inn í heim Raouls við lestur bókarinnar.